Fréttasafn



8. mar. 2021 Almennar fréttir

Leið vaxtar skilar auknum lífsgæðum

Leið vaxtar er sú leið sem mun skila okkur auknum lífsgæðum meðan leið aukinnar skattlagningar tefur endurreisnina. Leið vaxtar felst í því að hlúa að því sem fyrir er og sækja tækifærin. Þetta kom fram í máli Sigurðar Hannessonar, framkvæmdastjóra SI, á Iðnþingi 2021. Hann sagði að á næstu fjórum árum þurfi að verða til 29 þúsund störf í einkageiranum og útflutningstekjur að aukast um 300 milljarða. Þetta muni ekki gerast að sjálfu sér og taka þurfi réttar ákvarðanir á næstu mánuðum svo hagkerfið eflist og lífsgæðin aukist. Sigurður nefndi útgáfu skýrslu Samtaka iðnaðarins með efnahagslegum markmiðum til næstu fjögurra ára þar sem væru einnig fjölmargar tillögur um að slíta fjötra, hlaupa hraðar og sækja tækifærin.

Iðnaður stærsta atvinnugreinin

Sigurður sagði iðnað vera stærstu atvinnugreinin á Íslandi. Iðnaður skapi fimmta hvert starf, tæplega fjórðung landsframleiðslu og 40% útflutnings. Eina greinin sem kæmist næst iðnaði í umfangi væri starfsemi hins opinbera. „Iðnaður er máttarstólpi sem mun reisa efnahags Íslands við nú sem fyrr.“

Atvinnustefna til samhæfingar

Í máli sínu vék Sigurður að mikilvægi þess að mótuð væri atvinnustefna sem væri einskonar samhæfing. Hann nefndi að fyrr í vikunni hafi forsætisráðherra bent á að oft brenni við að stofnanir og ráðuneyti eigi erfitt með að vinna saman og hún hafi bent á að þau væru þjónar samfélagsins alls. „Ég gæti ekki verið meira sammála því með því að ganga í takt næst miklu meiri árangur.“ 

Hann sagði að búa þyrfti fyrirtækjum samkeppnishæf skilyrði og slíta fjötrana þannig að þau geti hlaupið hraðar. Í því samhengi nefndi hann að heimatilbúnir fjötrar hamli til að mynda hraðari uppbyggingu íbúðarhúsnæðis líkt og komið hafi fram á þinginu auk þess sem innviðir landsins hafi verið sveltir eftir síðasta efnahagsáfall. „Við erum enn að fást við afleiðingar þess núna. Skuldum þess tíma var velt á okkur sem hér erum og á komandi kynslóðir. Þá skuld þarf að greiða og það bendir ekkert til þess að sú skuld verði greidd í bráð.“

Helstu tækifærin liggja í hugverkaiðnaði

Í máli Sigurðar kom fram að framtíð okkar eigi ekki að ráðast af örfáum breytum heldur þurfi stoðirnar að vera nokkrar og þær þurfi að vera sterkar. Hann sagði hugverkaiðnaðinn vera nýja stoð sem væri fjórða stoðin og þar liggi okkar helstu tækifæri með því að virkja helstu auðlindina, hugvitið, þennan magnaða kraft sem engin takmörk séu sett. Hann sagði hugverkaiðnað hafa fest sig í sessi sem ný stoð en áður hafi það verið fjarlægur draumur. „Stjórnvöld eiga sannarlega hrós skilið fyrir að hafa slitið fjötra þannig að hugvitið geti blómstrað. Stærstu skrefin voru líklega stigin á síðasta ári og allt bendir til þess að þriðji áratugur aldarinnar verði áratugur nýsköpunar.“ Hann sagði að sækja þyrfti tækifæri okkar tíma sem liggja í hugverkaiðnaði og í öðrum iðnaði sem tengist hröðum tækniframförum og loftslagsmálum. Þetta sé stærsta efnahagsmálið. Þá nefndi Sigurður að önnur ríki væru að sækja erlenda fjárfestingu markvisst. „Við þurfum að bretta upp ermarnar á þessu sviði og hlaupa hraðar, annars töpum við. Það kallar á frumkvæði og það væru mikil vonbrigði ef íslensk stjórnvöld sýna ekki það frumkvæði.“

Í lok erindis síns sagði Sigurður markmiðin vera skýr, það er að skapa ný störf og aukin verðmæti. Leiðin væri líka skýr en það væri leið vaxtar þar sem fyrirtækjum er búið samkeppnishæft umhverfi. Jafnframt væri það skýrt hvernig þetta væri gert: „hlúa að því sem er fyrir og sækja tækifærin“.

Hér er hægt að horfa á upptöku af Sigurði:

https://vimeo.com/519865870