Fréttasafn



13. sep. 2016 Iðnaður og hugverk

Málmiðnaðardeild VMA fær stuðning frá atvinnulífinu

Jóhannes Rúnar Sigurðsson, formaður Félags málmiðnaðarmanna á Akureyri, segir að fyrirtæki hafi brugðust vel við þegar til þeirra var leitað með stuðning við málmiðnaðardeild Verkmenntaskólans á Akureyri (VMA) en hins vegar hafi það verið mikil vonbrigði hversu mikið fálæti ríkisvaldið sýnir skólanum með ónógum fjárveitingum sem geri það að verkum að honum er ekki gert kleift að endurnýja tækjabúnað. Þetta kemur fram í viðtali við Jóhannes Rúnar á vefsíðu VMA. Í síðustu viku var efnt til hófs í húsnæði málmiðnaðardeildar VMA og til þess boðið fulltrúum fyrirtækja sem hafa stutt deildina við endurnýjun á TIG-suðuvélum og fjármögnun og uppsetningu á hlaupaketti í húsnæði málmiðnaðardeildarinnar.

Á vefsíðunni er einnig vitnað til orða Harðar Óskarssonar, brautarstjóra málmiðnaðarbrautar VMA, sem segir með ólíkindum hversu mikillar velvildar brautin njóti frá fyrirtækjum í nærumhverfinu. „Við erum afar þakklátir fyrir þann mikla og góða stuðning og velvilja sem fyrirtækin hafa sýnt okkur. Það var alveg sama til hverra við leituðum, allir voru tilbúnir að gefa okkur vinnu og efni og aðstoða okkur á allan hátt, Það er okkur mikils virði að hafa yfir að ráða góðum tækjabúnaði til þess að geta boðið nemendum okkur upp á góða kennslu með fyrsta flokks tækjabúnaði.“

Í hófinu fluttu ávörp Jóhann Rúnar Sigurðsson, Hörður Óskarsson, Sigríður Huld Jónsdóttir, skólameistari VMA, Baldur Dýrfjörð, fulltrúi Norðurorku og Gústaf Adolf Hjaltason, verkefnastjóri hjá Iðunni fræðslusetri.

Nánar á vefsíðu VMA: http://www.vma.is/is/skolinn/frettir/otrulegur-studningur-atvinnulifsins