Fréttasafn



23. ágú. 2019 Almennar fréttir Efnahagsmál Starfsumhverfi

Mesti samdráttur í fjölda starfandi í ríflega 9 ár

Fjöldi starfandi í hagkerfinu dróst saman um 1,7% í júní síðastliðnum frá sama mánuði í fyrra. Vaxandi samdráttur hefur verið í fjölda starfandi frá því í apríl en fækkun starfandi mældist ríflega 1% á öðrum ársfjórðungi ársins og er það mesti samdráttur í fjölda starfandi frá því á árinu 2010. Benda tölurnar til þess að samdráttur hafi verið í hagkerfinu á þeim ársfjórðungi en landsframleiðslutölur fyrir ársfjórðunginn hafa ekki enn verið birtar. Kemur þetta fram í gögnum sem Hagstofan birti í gær. Tölur þessar sýna að skýr merki eru um samdrátt í hagkerfinu líkt og kemur fram í nýrri Tölur þessar sýna að skýr merki eru um samdrátt í hagkerfinu. Líkt og rætt var um í greiningu Samtaka iðnaðarins um forsendur frekari lækkunar stýrivaxta Seðlabankans sem birt var í gær. 

Starfandi-og-landsframleidsla

Mestu munar um fækkun í ferðaþjónustu

Í gögnum Hagstofunnar má sjá að fækkun starfandi hefur verið sérstaklega mikil í ferðaþjónustu. Kemur það ekki á óvart en uppruni samdráttarins í hagkerfinu er fækkun ferðamanna undanfarna mánuði. Ríflega 50% af heildarfækkun starfandi í hagkerfinu á tímabilinu júní í fyrra til júní í ár voru starfandi í einkennandi greinum ferðaþjónustu. Samtals hefur starfandi fækkað í þeirri grein um 1.751 manns eða um 5% milli ára. 

Víðtækur samdráttur í iðnaði

Í iðnaði mældist 2,3% samdráttur í fjölda starfandi í júní sl. þ.e. þó nokkuð meir en í hagkerfinu öllu. Nam samdrátturinn m.a. 6,5% í upplýsingatækni og fjarskiptum sem er mun meira en í hagkerfinu öllu. Í framleiðsluiðnaði án fiskvinnslu var samdrátturinn 2,7%. Einungis 0,5% vöxtur var í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð en hægt hefur verulega á vextinum undanfarna mánuði.

Starfandi