Fréttasafn



28. ágú. 2017 Almennar fréttir Starfsumhverfi

Mikið flökt krónunnar dregur úr fjárfestingu hér á landi

Í Fréttablaðinu um helgina er rætt við Ingólf Bender, hagfræðing SI, sem segir það umhugsunarefni að á sama tíma og Seðlabanki Íslands segist ætla að grípa inn í gjaldeyrismarkaðinn og draga úr flökti á gengi krónunnar leyfi hann engu að síður genginu að sveiflast umtalsvert innan dags. Hann segir að slíkt sé ekki ávísun á stöðugleika í gjaldeyrismálum. „Mikið flökt krónunnar er einungis til þess fallið að fæla fjárfesta frá því að halda fjáreignum sínum í krónunni og draga þannig úr fjárfestingu hér á landi. Til lengri tíma litið kemur það niður á hagvexti,“ segir hann í samtali við Kristinn Inga Jónsson, blaðamann.

Þá er haft eftir Ingólfi að það sé í sjálfu sér alvarlegt ef bankinn ætlar sér að fylgja inngripastefnu sem dregur úr flökti en getur ekki greint á milli flökts og stefnu krónunnar, eins og seðlabankastjóri hafi viðurkennt. „Bankinn er þá í vanda staddur,“ segir Ingólfur og að það sé alvarlegt mál. „Ef Seðlabankinn er ekki í stakk búinn til þess að tryggja meiri stöðugleika á gjaldeyrismarkaði en þetta þarf að leita annarra lausna.“

Í fréttinni er einnig rætt við Stefán Brodda Guðjónsson, forstöðumann greiningardeildar Arion banka, sem meðal annars segir enn óljóst hvernig Seðlabankinn ætli að beita sér á gjaldeyrismarkaði og að lítið hafi skýrst í þeim efnum á fundi Seðlabankans síðastliðinn miðvikudag. 

Nánar á Vísi.