Fréttasafn



16. apr. 2019 Almennar fréttir Menntun

Mikil áhrif foreldra á námsval

Jóhanna Vigdís Arnardóttir, verkefnastjóri í menntamálum hjá SI, ræddi við Lindu Blöndal á Hringbraut um áhrif foreldra á námsval. Linda hóf þáttinn á að segja að núna stæðu mörg ungmenni frammi fyrir því að velja sér nám fyrir haustið og tölur bendi til þess að bóknámið sé ennþá á stalli. Hún vísaði í könnun frá 2016 þar sem kemur fram að þriðjungur upp í næstum 70% líkaði betur við verkleg fög en síðan væru aðeins 15% sem velji sér verklegt nám. 

Linda spurði hvort það væri eitthvað sem standi í vegi fyrir því að fólk velji eftir hjartanu? „Já það virðist vera. Það er ímyndarvandi mikill númer eitt, tvö, og þrjú og foreldravandi líka. Foreldrar eru ekki alveg að styðja krakkana sína í að velja eftir hjartanu. Þau segja við krakkana, þú hefur gaman af þessu en farðu fyrst í menntaskóla og kláraðu stúdentinn og síðan geturðu gert það sem þú vilt gera,“ svaraði Jóhanna Vigdís. 

Hún benti á að það væri hins vegar ekkert sem aftrar því að taka stúdentinn þó verknám sé valið. Í viðtalinu kemur fram að í boði eru um 100 námsleiðir í starfsnámi. Jóhanna Vigdís sagði að foreldrar og krakkar geti yfirleitt nefnt 5 til 6 námsleiðir en þær væru 100. 

Linda spurði hverjir það væru sem hefðu mest áhrif á krakkana? „Auðvitað eru það vinirnir líka, náms- og starfsráðgjafar í skólum eru fínir í að kynna fyrir þeim hinar og þessar leiðirnar, en númer eitt, tvö og þrjú eru þetta foreldrarnir.“ 

Á vef Hringbrautar er hægt að horfa á þáttinn í heild sinni.

Hansa-hringbraut4