Fréttasafn



10. apr. 2019 Almennar fréttir

Mikilvægt að huga að skilvirkni og kostnaði hins opinbera

Auknu umfangi hins opinbera hefur fylgt aukin skattbyrði og álögur á fyrirtæki og heimili í landinu. Miklar áskoranir eru fram undan í þessum efnum, m.a. vegna öldrunar þjóðarinnar. Mikilvægt er að huga að skilvirkni og kostnaðarlágmörkun í rekstri hins opinbera. Talsvert vantar upp á skilvirkni innan þessa kerfis sem tryggir þá betri nýtingu á skattfé landsmanna og svigrúm til skattalækkana. Í því sambandi ber sérstaklega að nefna skort á forgangsröðun, m.a. í fjárfestingum hins opinbera í innviðum þar sem velja á eftir þjóðhagslegum ávinningi. Þetta kemur meðal annars fram í umsögn Samtaka iðnaðarins um tillögu til þingsályktunar um fjármálaáætlun fyrir árin 2020-2024 sem send hefur verið fjárlaganefnd. 

Í umsögninni kemur fram að Samtök iðnaðarins fagni því að bætt samkeppnishæfni Íslands sé eitt af meginmarkmiðum ríkisstjórnarinnar samkvæmt stjórnarsáttmálanum. Alþjóðleg samkeppnishæfni hvers lands sé lykilforsenda bættra lífskjara og með markvissum aðgerðum m.a. á sviði ríkisfjármála vinni flest ríki heims að því að bæta stöðu síns lands í samkeppni við önnur ríki. Skýr stefna, fumlaus framkvæmd og markviss eftirfylgni ríkisvaldsins á þessu sviði leiði til raunverulegra umbóta og leggi grunn að auknum lífsgæðum íbúa. Þá segir að áhersla stjórnvalda á samkeppnishæfni sé jákvæð að mati SI og séu samtökin reiðubúin að leggja sitt af mörkum í samstarfi við stjórnvöld til þess að vinna að umbótum á því sviði til hagsbóta fyrir íslenskt samfélag.

Þá kemur jafnframt fram í umsögninni hvatning til þess að nýta fjármál hins opinbera til að efla samkeppnishæfnina, að hagstjórnartækin verði virkjuð til að tryggja stöðugleika, að draga betur fram í áætluninni aðgerðir til að fjölga starfsnámsnemum auk þess sem fagnað er þeirri aukningu sem varð á fyrirhuguðum samgönguframkvæmdum. Þá leggja Samtök iðnaðarins þunga áherslu á að áætlunum um eflingu nýsköpunar verði ekki hnikað vegna mikilvægis fyrir framtíðarlífskjör.

Hér er hægt að nálgast umsögnina í heild sinni.