Fréttasafn



18. júl. 2018 Almennar fréttir Nýsköpun

Mikilvægt að ljúka mótun nýsköpunarstefnu

Stjórnvöld vinna nú að mótun nýsköpunarstefnu. Það er sannarlega þarft verk enda viljum við ekki dragast aftur úr í samkeppni þjóða. Sú staðreynd að Ísland hefur hrapað um 10 sæti á lista Global Innovation Index (GII) á milli ára er þörf áminning um að við megum engan tíma missa og enn mikilvægara verður að ljúka mótun nýsköpunarstefnu. Þetta skrifar Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, í grein sinni sem birt er í Markaðnum sem fylgir Fréttablaðinu í dag með yfirskriftinni Betur má ef duga skal. 

Sigurður segir jafnframt að með markvissri uppbyggingu geti Ísland sannarlega orðið nýsköpunarland rétt eins og landslið Íslands í knattspyrnu gat á örskömmum tíma náð ótrúlegum árangri og að tíminn sé núna. Í greininni segir hann að landslið Íslands í knattspyrnu hafi veitt landsmönnum mikla gleði og vakið aðdáun fyrir afrek sín, ekki síst það mikla afrek að komast á heimsmeistaramótið en það sé sérstakt til þess að hugsa að árið 2010 var liðið í 112. sæti FIFA-listans og fjarlægur draumur að keppa á heimsmeistaramótinu. Staðan hafi svo sannarlega gjörbreyst á stuttum tíma og að ýmsar skýringar séu á þessum mikla árangri, ekki síst þrotlaus vinna þjálfara, leikmanna og annarra sem að undirbúningi koma og góður aðbúnaður víða um land. Markviss uppbygging skili þannig árangri. Það eigi sannarlega við á fleiri sviðum – samkeppnishæfni Íslands og í nýsköpun. 

Sigurður segir að rétt eins og í knattspyrnu keppi ríki heims sín á milli um að búa þegnum sínum sem best lífskjör og skapa þannig aðlaðandi aðstæður fyrir fólk og fyrirtæki. Samkeppnishæfni þjóða skipti þannig máli varðandi velsæld landsmanna. Þau fjögur málefni sem skipta mestu máli fyrir samkeppnishæfni þjóða séu menntun, innviðir, nýsköpun og starfsumhverfi. Með umbótum á þessum sviðum stöndum við okkur betur í samkeppni þjóða, aukin verðmæti verða til sem standa undir auknum lífsgæðum. Nýsköpun sé ein meginforsenda framleiðniaukningar, verðmætasköpunar, samkeppnishæfni og gjaldeyrisöflunar fyrirtækja og þjóða. Hann segir að markmið Samtaka iðnaðarins sé að Ísland verði orðið meðal fimm efstu landa samkvæmt þessum mælikvarða árið 2020. 

Hér er hægt að lesa grein Sigurðar í heild sinni.