Fréttasafn



24. apr. 2023 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Orka og umhverfi

Mikilvægt að orkuuppbyggingu sé flýtt

Sigríður Mogensen, sviðsstjóri iðnaðar- og hugverkasviðs SI, er meðal viðmælenda Sigríðar Hagalín Björnsdóttur í Silfrinu á RÚV þar sem meðal annars er rætt um orkumál. Sigríður segir mikilvægt að vanda ákvarðanatöku í vindorku líkt og annarri. „Við höfum ekki beint lagst gegn henni heldur hvatt til þess að uppbyggingu sé hraðað. Hvers vegna gerum við það. Við þurfum að setja þetta í samhengi. Af hverju erum við að ræða uppbyggingu vindorku á Íslandi. Það er ekki úr lausu lofti gripið. Það er ekki verið að leggja til stórfellda uppbyggingu á nýjum iðnaði eða eitthvað slíkt. Af hverju erum við að huga að uppbyggingu vindorku eða uppbyggingu annars konar orku hér á landi. Staðreyndin er sú að Ísland notar í dag 1-1,5 milljón tonn af olíu á ári og fer sú notkun vaxandi með auknum efnahagsumsvifum þessi misserin.“

Öfug orkuskipti með meiri olíunotkun

Sigríður segir að við séum í öfugum orkuskiptum. „Við sjáum dæmi þess í fréttum um metfjölda í komu skemmtiferðaskipa í ár til Íslands. Við sjáum að fiskimjölsverksmiðjur eru að keyra á olíu þessi misserin í stað raforku. Við sjáum að stjórnvöld hafa sett háleit markmið um að Ísland verði jarðefnaeldsneytislaust innan 17 ára þannig að við getum ekki verið að ræða þetta í einhverri einangrun frá þessum stóru markmiðum.“

Þurfum græna orku til að skipta út olíu

Þegar Sigríður er spurð út í áætlaða orkuþörf segir hún að í þeim sviðsmyndum sem dregnar hafa verið upp sé ekki verið að tala um nýja orkuþörf heldur breytta orkunotkun. „Olía er líka orka og hverju erum við að fórna með því að brenna allri þessari olíu. Þannig að við höfum hvatt til þess að orkuuppbyggingu sé flýtt af því við þurfum græna orku til að skipta út þessari miklu notkun af olíu.“

Tvöföldun á orkuþörf lágmark 

Þegar Sigríður er spurð um orkuþörfina segir hún að hún mundi telja að tvöföldum væri lágmarkið. „Þarna eru verkfræðilegir útreikningar á því hvað þarf til að skipta út olíunni. Varðandi orkuþörfina þá eru ýmis sjónarmið þar uppi. Hvernig verður hagvöxtur, hvernig verður atvinnuppbygging framtíðar, hvaða tækifæri ætlum við að sækja í matvælaframleiðslu, landeldi og nýjum iðnaði. En til að skipta út olíunni þá eru þetta verkfræðilegir útreikningar eingöngu. Auðvitað skeikar einhverjum prósentum til eða frá en Orkustofnun er því miður ekki að meta þetta rétt. Í þeim sviðssmyndum sem hafa komið fram meðal annars af hálfu Samorku þar sem orkufyrirtæki, verkfræðistofur og fleiri koma að þeim útreikningum þá er vissulega gert ráð fyrir ákveðnum tæknibreytingum, bættri orkunýtingu, borgarlínu. Það er allt inn í þessum útreikningum.“

Fjölbreyttar og breiðar lausnir

Sigríður segir aðspurð að það sé enginn að tala um stórar framkvæmdir eins og Kárahnjúkavirkjun. „Þess vegna skiptir máli að ræða vindinn í þessu samhengi. Það er verið að tala um miklu fjölbreyttari og breiðari lausnir. Auðvitað mun bætt orkunýting skipta miklu máli.“

Umræðan um þriðju orkuskiptin komin skammt á veg

Sigríður segist vilja horfa til Norðurlandanna og nágrannaríkja: „Finnar eru að opna stærsta kjarnaorkuver um þessar mundir. Norðmenn eru að huga að vindorkuuppbyggingu á hafi sem er margföld allri raforkuframleiðslu Íslands. Umræðan hér er komin mjög skammt á veg hvað varðar þessi þriðji orkuskipti ef við berum okkur saman við Norðurlöndin. Framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna er að hvetja þjóðir heims til að taka sig saman um margfalda græna orkuöflun á heimsvísu. Á Íslandi erum við að tala um kannski tvöföldun eða rétt rúmlega til að standa undir hagvexti framtíðarinnar. Fyrst og fremst til að skipta út olíunotkuninni. Það er merkilegt að fylgjast með umræðunni hér miðað við hvernig hún er annars staðar.“

Erum að súpa seiðið af því að hafa ekki hugað að orkuuppbyggingu í áratug

Sigríður segir jafnframt í þættingum: „Á síðastliðnum áratug eða svo hér á landi þá hefur þessum orkumálum að vissu leyti verið haldið í gíslingu. Það er að segja það hefur verið algjör kyrrstaði í orkuöflun og við erum að súpa seiðið af því í dag að hafa ekki hugað að orkuuppbyggingu.“

Hér er hægt að horfa á þáttinn í heild sinni. 

Silfrið á RÚV, 23. apríl 2023.

Sigríður Hagalín Björnsdóttir ræddi við Andrés Inga Jónsson alþingismann, Björt Ólafsdóttur fyrrverandi umhverfisráðherra, Ólaf Pál Jónsson heimspekiprófessor við Háskóla Íslands og Sigríði Mogensen sviðsstjóra iðnaðar- og hugverkasviðs Samtaka iðnaðarins.

Silfrid-23-04-2023_3Sigríður Mogensen, sviðsstjóri iðnaðar- og hugverkasviðs SI.