Fréttasafn



22. apr. 2016 Mannvirki

Mikilvægt að uppræta brotastarfsemi

Samtök iðnaðarins vilja árétta í ljósi umræðu um möguleg lögbrot fyrirtækja í byggingariðnaði og mannvirkjagerð að þau fordæma vinnubrögð af því tagi sem fjallað hefur verið um. Flest fyrirtæki í byggingariðnaði og mannvirkjagerð á Íslandi eru til mikillar fyrirmyndar í allri sinni starfsemi og virða skyldur sínar gagnvart starfsmönnum og samfélaginu. Í byggingariðnaði og mannvirkjagerð á Íslandi starfa yfir 12 þúsund manns og því er um örfáa aðila að ræða sem virða ekki þær reglur sem settar hafa verið. Samtök iðnaðarins hafa ávallt talað fyrir því að íslensk iðnfyrirtæki virði lög og reglugerðir landsins og þá kjarasamninga sem að þeim snúa. Það er því fagnaðarefni að skattayfirvöld vinni af festu og að það takist að uppræta þá meinsemd sem felst í því þegar fyrirtæki virða ekki þær reglur sem settar eru og stundi jafnvel glæpastarfsemi. 

Almar Guðmundsson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, segir að þó hagsmunir þeirra sem í þessari atvinnugrein starfa geti verið ólíkir þá sé enginn afsláttur gefinn af því að fyrirtækin virði þá lagaramma sem þeim er ætlað að starfa innan og að þau standi við sínar skyldur. „Það verður að koma fram í umræðu um þessi mál að fyrir utan starfsmenn sem brotið er á eru það ekki síst samkeppnisaðilar brotafyrirtækja sem verða fyrir tjóni af ólögmætri og ósiðlegri hegðun. Eitt af markmiðum Samtaka iðnaðarins er að skapa þannig rekstrarskilyrði að iðnfyrirtæki geti keppt í heilbrigðu samkeppnisumhverfi. Samtök iðnaðarins hafa undanfarin ár unnið ötullega að því að benda á samfélagslegan kostnað svartrar atvinnustarfsemi. Ef það reynist rétt sem greint hefur verið frá að tiltekin fyrirtæki í byggingariðnaði og mannvirkjagerð hafi brotið af sér fara slík mál sína lögboðnu leið í réttarkerfinu. Virkt eftirlit með starfsháttum fyrirtækja er mikilvægt þeim fyrirtækjum sem vilja standa vel að sinni starfsemi og starfa í heilbrigðu samkeppnisumhverfi. Það er því að ósekju og í raun óþolandi að öll atvinnugreinin er sett undir sama hatt. Það er skýrt í okkar huga að ekki er undir neinum kringumstæðum hægt að réttlæta að fyrirtæki komi sér undan skyldum sínum eða standi ekki skil á sínum lögbundnu greiðslum. Samtök iðnaðarins hafa alltaf verið reiðubúin að leggja sitt af mörkum til að finna bestu leiðirnar til að sporna við brotum af því tagi sem um ræðir og þá er mikilvægt að horfa til þeirra landa sem mestum árangri hafa náð í slíkum málum. Við munum hér eftir sem hingað til vinna með aðildarfyrirtækjum að því að viðhalda og efla gæðastarf innan þeirra raða en það er án efa besta leiðin til að styrkja starfsemina.“