Fréttasafn



11. feb. 2020 Almennar fréttir Mannvirki

Mikilvægt hlutverk hins opinbera í húsnæðisuppbyggingu

Byggingariðnaður hér á landi sem er 8% af vergri landsframleiðslu, með 13.800 launþega og 350 milljarða veltu skipar veigamikinn sess í landsframleiðslunni og óbeinu áhrifin eru einnig töluverð. Þetta kom meðal annars fram í máli Sigurðar Hannessonar, framkvæmdastjóra SI, á fundi Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, HMS, þar sem fjallað var um húsnæðismarkaðinn. Hlutverk hins opinbera í jafnri húsnæðisuppbyggingu var yfirskrift á erindi Sigurðar og sagði hann sveiflur í byggingariðnaði hér á landi vera meiri en gengur og gerist í viðskiptahagkerfinu og mun meiri en víðast hvar í Evrópu og kosti samfélagið háar fjárhæðir. Mikill óstöðugleiki í umhverfi greinarinnar birtist í miklum sveiflum í fjölda launþega og veltu „Uppbygging húsnæðis er ekki eins og hagkvæm og hún gæti verið og þar auðvitað gegnir hið opinbera stóru hlutverki.“

Þarf frekari sameiningar til að auka skilvirki og yfirsýn

Sigurður sagði málefni húsnæðisuppbyggingar vera á höndum of margra stofnana en að skilvirknin væri að aukast þar sem húsnæðis- og byggingarmál séu loksins saman í einu ráðuneyti, félagsmálaráðuneytinu, og búið sé að sameina Íbúðalánasjóð og Mannvirkjastofnun í Húsnæðis- og mannvirkjastofnun en samtökin myndu vilja sjá frekari sameiningar til að auka enn á skilvirknina og yfirsýnina í þessu mikilvæga málaflokki.

Upplýsingar af skornum skammti

Á fundinum nefndi Sigurður einnig mikilvægi þess að bætt yrði úr upplýsingum um húsnæðis- og byggingarmál til að auka yfirsýn á markaði en slíkar upplýsingar væru af skornum skammti. Hann sagði íbúðatalningu Samtaka iðnaðarins vera bestu heimildina um fjölda íbúða í byggingu en að upplýsingar Hagstofunnar endurspegli gamlan veruleika þar sem of mikil töf væri á þeirra upplýsingum sem leiði til hættu á því að mikilvægar ákvarðanir byggi á röngum upplýsingum. Hann sagði innleiðingu Byggingargáttar marka þáttaskil og mundi leiða til betri upplýsingagjafar. Þá muni það auka yfirsýn að ný stofnun HMS miðli upplýsingum, meðal annars um húsnæðisáætlanir sveitarfélaga.

Íbúðamarkaðurinn stór og mikilvægur

Sigurður sagði skilvirkari stjórnsýsla leiða til hagkvæmari uppbyggingar og nefndi að rafræn byggingargátt væri stórt skref í rétta átt þar sem samræming verður aukin. Hann sagði jafnframt að úrskurðarnefnd húsnæðis- og byggingarmála yrði að vera virkt úrræði en þar séu miklar tafir á afgreiðslu mála. Því til viðbótar nefndi hann mikilvægt hlutverk sveitarfélaga sem útvegi lóðir og að opinberri gjaldtöku ætti að stilla í hóf.

Í niðurlagi erindis síns sagði Sigurður hið opinbera hafa mikilvægu hlutverki að gegna enda væri hér um að ræða stóran og mikilvægan markað sem þurfi stöðugleika svo uppbygging íbúðarhúsnæðis geti orðið hagkvæm.

Hér er hægt að nálgast glærur Sigurðar frá fundinum.

Á vef HMS er hægt að nálgast frekari upplýsingar um fundinn. 

HMS-2-

HMS-3-

HMS-4-