Fréttasafn



12. apr. 2019 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk

Mögulegt að Ísey skyr verði í 50 þúsund verslunum í Japan

Forstjóri Nippon Luna, Yoshihiko Ishii, og forstjóri Mjólkursamsölunnar sem er aðildarfyrirtæki SI, Ari Edwald, hafa undirritað viljayfirlýsingu um skoðun á frekara samstarfi í sölu Ísey skyri í Japan þar sem sterk staða Nippon Ham getur mögulega komið vörunni í allt að 50.000 verslanir í Japan á næstu árum. Á myndinni hér fyrir ofan eru í efri röð frá vinstri, Kazuhiro Mikuni, aðstoðarforstjóri Nippon Ham, Yoshihide Hata, forstjóri Nippon, Jón Axel Pétursson, framkvæmdastjóri Ísey Export, Bolli Thoroddsen, forstjóri Takanawa. Sitjandi eru Yoshihiko Ishii, forstjóri Nippon Luna, og Ari Edwald, forstjóri Mjólkursamsölunnar. Forstjóri Nippon Ham heimsótti afurðastöð MS á Selfossi og höfuðstöðvar MS í Reykjavík þar sem viljayfirlýsingin var undirrituð. 

Í fréttatilkynningu segir að Nippon Ham sé eitt stærsta fyrirtæki Japans á sviði ferskra og frosinna matvæla og jafnframt fjórði stærsti kjötframleiðandi í heims. Þar starfi 30.000 manns og fyrirtækið velti um 1.400 milljörðum árlega. Heimsókn forstjóra fyrirtækisins tengist undirbúningi framleiðslu og sölu á Ísey Skyr í Japan, en dótturfyrirtæki Nippon Ham, mjólkurvörufyrirtækið Nippon Luna gerði framleiðslu og vörumerkjasamning um Ísey Skyr við MS á síðasta ári. Nippon Ham tók fyrr á árinu ákvörðun um að gera Ísey Skyr að sinni aðal heilsuvöru og segir í tilkynningunni að það sé mjög þýðingarmikið fyrir alla markaðssókn sem viðkemur Ísey Skyri þar í landi. Áætlanir geri ráð fyrir að mikill kraftur verði settur í markaðssetninguna og koma eigi Ísey vel á kortið áður en Ólympíuleikarnir hefjist í Tókýó árið 2020.

Verið er að ljúka byggingu nýrrar verksmiðju í nágrenni Tókýó sem hefur framleiðslu á Ísey Skyr fyrir Japans-markað á næstu mánuðum. Í tilkynningunni segir jafnframt að heimsókn forstjóra Nippon Ham hafi mikla þýðingu fyrir markaðssetningu á Ísey Skyr í Japan, þar sem sterk staða Nippon Ham geti mögulega komið vörunni í allt að 50.000 verslanir í Japan á næstu árum. Þá segir að innkaupastjórar, fjölmiðlar og neytendur í Japan hafi sýnt skyrinu mikinn áhuga og megi segja að umtalsverð eftirvænting sé eftir Ísey Skyri í Japan.

_Y9A9526Í vikunni tók Guðlaugur Þór Þórðarsson, utanríkisráðherra, á móti forstjóra Nippon Luna ásamt Kitagawa Yasuhiku, sendiherra Japans á Íslandi. 

_Y9A9710Þórdís Kolbrún Gylfadóttir Reykfjörð, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, átti fund með forstjóra Nippon Ham í vikunni.