Fréttasafn



22. mar. 2019 Almennar fréttir Mannvirki

Mygla í skólabyggingum afleiðing sparnaðar

Á síðustu árum hefur innviðum landsins ekki verið sinnt sem skyldi, viðhaldi verið ábótavant og nýframkvæmdir skornar við nögl. Afleiðingin blasir við þessa dagana þegar skólabyggingum hefur verið lokað vegna myglu. Þetta hefur reynst dýrkeyptur sparnaður. Þetta kemur fram í grein Sigurðar Hannessonar, framkvæmdastjóra SI, í pistli í Mannlífi í dag undir yfirskriftinni Dýrkeyptur sparnaður.

Þá segir Sigurður í pistlinum að samkvæmt skýrslu um ástand og framtíðarhorfur innviða á Íslandi sem Samtök iðnaðarins og Félag ráðgjafarverkfræðinga gáfu út árið 2017 sé uppsöfnuð viðhaldsþörf 372 milljarðar, mest í vegakerfi, fasteignum hins opinbera, flutningskerfi raforku og fráveitum. Virði innviða sé nú af svipaðri stærðargráðu og eignir lífeyrissjóða. Virði innviða fyrir samfélagið sé þó mun meira en þessar tölur gefi til kynna þar sem innviðir leggi grunn að verðmætasköpun og útflutningstekjum hagkerfisins. 

Hann segir að í innviðaskýrslunni komi fram að fasteignir hins opinbera fái ástandseinkunnina 3 af 5 en það þýði að mannvirkið sé viðunandi en staða þess ekki góð. Búast megi við umtalsverðu viðhaldi til þess að halda uppi starfsemi þess. Nauðsynlegt verði að leggja í fjárfestingar til framtíðar litið. Langtímahorfur bendi til þess að staða mála verði óbreytt að áratug liðnum nema verulega verði bætt í viðhald og að sú staða sé óviðunandi og verði sveitarfélög að gera betur.

Hér er hægt að lesa pistil Sigurðar í heild sinni.

Mannlíf, 22. mars 2019.

Mannlifspistill