Fréttasafn



21. mar. 2020 Almennar fréttir Efnahagsmál

Nauðsynlegar aðgerðir stjórnvalda á erfiðum tímum

Efnahagsaðgerðir ríkisstjórnarinnar sem kynntar voru í dag senda skýr skilaboð um að stjórnvöld ætli að beita ríkisfjármálunum af fullum þunga til að hjálpa heimilum og fyrirtækjum í landinu að komast í gegnum þá erfiðu tíma sem þjóðin gengur nú í gegnum vegna áhrifa COVID-19. Samtök iðnaðarins fagna því að stjórnvöld stígi fram með skýrum og afgerandi hætti um leið og minnt er á að fyrirtæki í öllum atvinnugreinum finna fyrir áhrifum efnahagskrísunnar. Það á sér í lagi við um fyrirtæki í iðnaði en eftirspurn hefur dregist saman og erfitt er að halda framleiðslu og daglegum störfum í föstum skorðum við þessar aðstæður.

Fram kom að aðgerðirnar miði að því að hjálpa fólki að taka réttar ákvarðanir fyrir samfélagið allt og að stjórnvöld myndu standa með fyrirtækjunum sem þyrftu að taka réttar ákvarðanir við óvissu í þröngri stöðu. Markmiðið er að fyrirtækin séu tilbúin þegar tækifærin koma aftur, að lágmarka skaða og stytta viðbragðstíma.

Betra að gera meira en að gera of lítið

Umfang aðgerðanna er 230 ma.kr. eða 7,8% af landsframleiðslu. Umfangið sýnir að stjórnvöld eru reiðubúin að standa með fyrirtækjum og heimilum í landinu í gegnum þessa erfiðu tíma.

Fram kom á fundinum að við þessar aðstæður er betra að gera meira en að gera of lítið og að meira verði gert ef þarf. Af því að gera of mikið hlýst minna tjón en að gera of lítið. Aðgerðirnar eru tíu talsins og í senn stórar og fjölbreyttar. Ríkissjóður er í stöðu til að fara í slíkar aðgerðir nú vegna góðrar skuldastöðu í kjölfar uppsveiflu síðustu ára og skynsamrar stefnu í ríkisfjármálum en skuldastaða ríkis og sveitarfélaga er nú um 27% af landsframleiðslu sem er lágt í sögulegu og alþjóðlegu ljósi.

Fjölþættar aðgerðir

Um er að ræða fjölþættar aðgerðir á sviði ríkisfjármála sem snúa bæði að fyrirtækjum og heimilum. Markmið aðgerðanna eru þríþætt, þ.e. að verja afkomu fólks og fyrirtækja, vernda grunnstoðir og hefja viðspyrnu. Aðgerðir til að koma í veg fyrir að fjöldi fólks missi vinnuna og fjöldi fyrirtækja fari í þrot. Stuðningur við einstaklinga og fjölskyldur vegna erfiðra aðstæðna. Aðgerðir til að auka efnahagsstarfsemi, vöruviðskipti og fjárfestingar. Aðgerðirnar taka til næstu vikna en stjórnvöld eru meðvituð um að gera þurfi meira.

Efnahagsaðgerðirnar eru þessar:

Adgerdir-loka

 

Lykilaðilar ganga í takt

Í máli ráðherranna þriggja á fundinum í Hörpu í dag kom fram að víðtæk samstaða væri um aðgerðir til að koma íslensku samfélagi í gegnum þetta erfiða tímabil. Aðgerðirnar sem stjórnvöld kynntu í dag koma til viðbótar aðgerðum og hugmyndum Seðlabankans, fjármálamarkaðar og sveitarfélaga.

Seðlabankinn hefur lækkað vexti um heila prósentu á stuttum tíma, lækkað sveiflujöfnunarauka og lækkað og breytt bindiskyldu. Með þessu hefur bankinn lagt sitt af mörkum til að beita tækjum peningastjórnunnar til að örva eftirspurn í hagkerfinu og auka svigrúm fjármálafyrirtækja til að veita fyrirtækjum og heimilum súrefni í gegnum þessar þrengingar.

Fjármálafyrirtæki og lífeyrissjóðir hafa komið sér saman um viðbrögð gagnvart heimilum og fyrirtækjum. Í sameiginlegri yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar, Samtaka fjármálafyrirtækja og Landssamtaka lífeyrissjóða sem kom út í dag segir að aðilar muni birta opinberlega samræmd viðmið um greiðslufresti á lánum og frekari fyrirgreiðslu til fyrirtækja. Þá er boðað úrræði til að styrkja enn frekar getu lánastofnana til að mæta aðsteðjandi vanda. Auk þess verður komið til móts við heimili sem eiga við greiðsluvanda að stríða.

Samband íslenskra sveitarfélaga hefur beint því til sveitarfélaga að bregðast við ástandinu og hefur kynnt 26 hugmyndir og ábendingar að aðgerðum til viðspyrnu fyrir íslenskt atvinnulíf á tímum efnahagskrísu.