Fréttasafn11. ágú. 2017 Almennar fréttir

Neyslustýring stjórnvalda í bílakaupum hefur tekist

Stefna stjórnvalda að hækka vörugjöld á stærri bíla sem menga meira hefur ýtt undir innflutning og sölu á minni og sparneytnari bílum. Þetta kemur fram í umfjöllun Björns Jóhanns Björnssonar, blaðamanns, Morgunblaðsins í dag þar sem meðal annars er rætt við Özur Lárusson, framkvæmdastjóri Bílgreinasambandsins. Hann segir að innflutningur á minni og sparneytnari bílum hafi blómgast. 

„Þessi stefna stjórnvalda að hækka gjöld á stærri bíla, sem menga meira, hefur gengið eftir en mörgum finnst hún samt óréttlát. Þeim hefur verið refsað sem þurfa sannarlega stærri bíla, eins og stórar fjölskyldur og fólk á landsbyggðinni sem býr við þannig aðstæður að það þarf öfluga jeppa. Að öðru leyti má segja að þessi neyslustýring stjórnvalda hafi tekist,“ segir Özur í Morgunblaðinu. 

Haft er eftir Özuri að bílvélar hafi þróast gríðarlega hratt á síðustu árum og alltaf fjölgi þeim bílum sem lenda í flokki 15% vörugjalda og þar undir. Úrvalið sé mun meira en fyrir fimm árum. Hann tekur dæmi að jeppi sem var í 30% flokki fyrir fimm árum sé kannski kominn í 20% í dag. Özur segir helsta keppikefli framleiðenda sé að búa til vélar sem eyði minna og dragi úr losun. 

Í umfjölluninni segir hann jafnframt að bifreiðagjöld og vörugjöld á bíla og eldsneyti séu almennt mun hærri en í nágrannalöndum okkar og ríkið treysti æ meira á þennan tekjustofn sem skili ríkissjóði tugum milljarða króna á ári. Þá segir að nefnd sé að störfum á vegum fjármálaráðuneytisins við að endurskoða vörugjöld á eldsneyti og ökutæki en að aðeins fulltrúar ríkisins séu í þeirri nefnd og engir fulltrúar frá hagsmunasamtökum.  

Nánar í Morgunblaðinu, 11. ágúst 2017.