Fréttasafn



  • NSA

14. sep. 2009

Spennandi fjárfestingar hjá Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins

Á stjórnarfundi Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins sem haldinn var fyrir helgi var 6 mánaða uppgjör staðfest. Sjóðurinn var rekinn með 76 milljóna króna hagnaði fyrstu 6 mánuði ársins 2009. Fjárfest var fyrir rúman hálfan milljarð króna á fyrri hluta ársins. Sjóðurinn á nú hluti í 35 sprotafyrirtækjum og 3 samlagssjóðum.

Í lok júní námu heildareignir sjóðsins 4.265 milljónum króna og var eigið fé hans á sama tíma 4.035 milljónir króna eða sem nemur  95 % af heildareignum. 

Á fyrri hluta ársins hefur Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins fjárfest fyrir rúman hálfan milljarð króna, þar af beint í fimm nýjum verkefnum fyrir um 300  milljónir króna.  Þessi verkefni eru:

-gogoyoko ehf  sem er tónlistar- og samskiptavefur þar sem tónlistafólk og unnendur tónlistar stunda milliliðalaus viðskipti og samskipti.  gogoyoko veitir í raun aðgang að alheimsmarkaði milliliðalaust. Starfsmönnum hefur fjölgað verulega á árinu og eru nú 28.

-Gogogic ehf  sem sérhæfir sig í frumlegri leikjahönnun, gerð smærri tölvuleikja og framleiðslu margmiðlunarefnis fyrir vefinn. Fyrirtækið hefur m.a. gefið út tölvuleikinn Symbol6 og  fyrir iPhone og iPod Touch.  Hjá fyrirtækinu starfa nú 18 manns.

-Auris ehf  er fyrirtæki sem vinnur að þróun á nýju lyfi til útvortis notkunar gegn bráðri miðeyrnabólgu hjá börnum. Lyfinu er ætlað að koma í stað hefðbundinnar sýklameðferðar sem getur valdið lyfjaónæmi.  Félagið hefur gert samning um klínískar rannsóknir þar sem lyfið verður prófað og á þeim að ljúka í byrjun næsta árs.

-Gagnavarslan ehf sem veitir fyrirækjum og stofnunum margþætta þjónustu og ráðgjöf við skipulagningu og varðveislu gagna af öllum gerðum.  Gagnavarslan hefur þróað og byggt upp sérfræðiþekkingu á þessu sviði. Í geymslum félagsins á Ásbrú í Reykjanesbæ er hægt að geyma ekki aðeins pappír- og rafræn gögn heldur einnig listaverk og menningaminjar við rétt hita- og rakastig. Hjá félaginu starfa 30 manns.

-Mentis Cura ehf  hefur þróað aðferð sem greinir heilasjúkdóma, m.a. Alzheimer, út frá heilaritum sem aðferð félagsins greinir og túlkar. Með greiningu er vonast til að sjúkdómar verði greindir fyrr og af meira öryggi en áður sem aftur gæti aukið möguleikana á læknismeðferð.  Markaðssetning á vörum félagsins er að hefjast í samstarfi við stórt alþjóðlegt fyrirtæki á heilbrigðissviði.  Hjá Mentis Cura starfa nú 9 manns.

Nýsköpunarsjóður á  hluti í þremur samlagssjóðum , Brú ll, Auði l og Frumtaki slhf og hefur á þessu ári fjárfest fyrir um 300 milljónir króna í þessum sjóðum. Þessir sjóðir fjárfesta í félögum sem  lengra eru komin á sínum þroskaferli.  Stærstu hlutdeildina, eða 37% hlut, á Nýsköpunarsjóður í Frumtaki slhf sem hefur fjárfest í 4 félögum.  Þessi félög eru:

-Trackwell hf  sem sérhæfir sig í hugbúnaðargerð með sérstakri áherslu á lausnir tengdar fjarskiptum og staðsetningartækni, bæði bílum og skipum.  Félagið hefur þróað þjónustu sem kallast Trackwell forðastýring  sem auðveldar fyrirtækjum að ná hagræðingu í rekstri með betri skráningum og yfirsýn. Hjá félaginu starfa 24 manns.

-AGR  ehf  sem á rætur sínar að rekja til rannsókna við verkfræðideild Háskóla Íslands. Fyrirtækið hefur þróað aðferðir og hugbúnað fyrir alþjóðlegan markað og þegar selt hann til 11 landa. Hugbúnaðurinn gerir söluspár um einstakar vörur á grundvelli birgðabókhalds þannig að hægt sé að lágmarka birgðakostnað.  Hjá fyrirtækinu starfa nú 13 manns.

-Handpoint ehf  er fyrirtæki sem sérhæfir sig í hugbúnaðarlausnum á handtölvum fyrir verslunarkeðjur. Fyrirtækið hefur frá 2004 þróað fullkomið afgreiðslukerfi fyrir handtölvur sem styður nýjan greiðslukortastaðal, svokallaðan EMV staðal, sem hefur veitt fyrirtækinu sérstöðu á alþjóðavísu og skapað verkefni og viðskiptatengsl við stórar verslunarkeðjur í Evrópu. Hjá félaginu starfa 9 manns.

-Andersen & Lauth er fyrirtæki sem hannar, framleiðir og selur hátískufatnað á alþjóðamarkaði. Félagið er komið með söluskrifstofur í tólf löndum og selur hönnun sína í rúmlega 250 búðir í um tuttugu löndum.  Hjá félaginu starfa 12 manns.

Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins er sjóður sem fjárfestir í áhugaverðum nýsköpunarverkefnum með hlutafjárkaupum í sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum.  Sjóðurinn á nú hluti í 35 sprotafyrirtækjum og 3 samlagssjóðum.