Fréttasafn



  • Mynd08

7. okt. 2009

Þaulhugsaður einfaldleiki, ný íslensk hönnun frá NEMA ehf.

Sprotafyrirtækið NEMA ehf kynna til sögunnar nýja íslenska framleiðslu á lýðheilsuvænum búnaði.

Þessa dagana er verið að markaðssetja nýja íslenska hönnunar- og framleiðslulínu sem hefur að gera með lýðheilsu í hátæknisamfélagi. Vörulínan er sniðin að þörfum þeirra sem nota fartölvur daglega og samanstendur af brettum undir fartölvur og dagblaða- og bókastöndum og er hönnuð í nánu samráði við lækna og iðjuþjálfa. Vörurnar eru framleiddar í Múlalundi.

Flestir vita um hættuna sem líkamanum stafar af þeim algenga notkunarmáta að setja tölvuna í kjöltu sér og þá án nokkurrar varnar. Skaðsemin er ekki hvað síst þegar notast er við þráðlausar nettengingar. Að sporna gegn skaðsemi af þessum toga er helsti drifkrafturinn að baki framleiðslu Nema-tölvubretta. Auk þess að búa yfir haldgóðri geislavörn þegar unnið er með tölvuna í kjöltunni færa brettin notandanum á sama tíma aukin þægindi og leiða til ákjósanlegri líkamsbeitingar. Ásta Kristrún Ragnarsdóttir, náms- og starfsráðgjafi, hefur unnið með námsmönnum um 30 ára skeið og reynsla hennar á þeim vettvangi varð til þess að hún hófst handa við hönnun á forvarnarbúnaði fyrir námsfólk. Borðtölvan hefur nú vikið fyrir fartölvunni og jafnt almenningur, vinnustaðir sem skólar nýta fartölvur í sífellt meira mæli. Í vinnu sinni með nemendum skynjaði Ásta hversu umhverfið aðlagaði sig illa að breyttum starfsskilyrðum. Hún hafði þá samband við lækna og iðjuþjálfa um umbætur vinnuskilyrða þeirra sem glósa námsefni bóka inn á tölvur. Að því búnu leitaði hún til hins virta vinnustaðar Múlalundar en þar tóku forsvarsmenn afar vel í hugmyndina um samstarf um slíkt nýsköpunarverkefni. Þróun, prófanir og framleiðsluferlið hefur staðið yfir í rúmt ár, en nú fá landsmenn senn að njóta ávaxta þeirrar vinnu.

Auk tölvubretta af tveimur stærðum eru í línunni samanbrjótanlegir bókastandar með burðarþoli fyrir bækur af öllum stærðum og gerðum.

Samanbrotinn passar standurinn með fartölvunni í tösku og því auðvelt að taka hann með á milli vinnustöðva.  

Nútíma náms- og kennsluhættir reikna með að nemendur vinni á tölvu þegar þeir glósa efni námsbókanna og því bæta bretti og standur Tvennan til muna aðstæður námsmanna á nýjum tímum. Í farvatninu er áframhaldandi samstarf á milli Nema og Múlalundar um hönnun og framleiðslu fleiri  tegunda stoðbúnaðar í því augnamiði að bæta vinnuaðstæður þeirra sem vinna í þekkingariðnaði þar sem tölva og bækur eru megin vinnutækin.