Fréttasafn



  • Helgi Magnússon

21. okt. 2009

Upp eða niður?

Eftir Helga Magnússon, formann SI

Íslendingar þurfa að gera það upp við sig hvort þeir ætla að freista þess að koma sér hratt upp úr kreppunni eða stefna enn lengra niður í öldudal tekjuminnkunar, atvinnuleysis, niðurskurðar, skattpíningar og samdráttar. Til þess að leiðin geti legið hratt upp þarf að nýta þau tækifæri sem við höfum til nýrrar verðmætasköpunar í atvinnulífinu á næstu misserum. Það þarf að skipta megináherslum í tvennt. Annars vegar þarf að greiða úr brýnum málum til skemmri tíma litið og samhliða þarf að vinna vandaðar langtímaáætlanir um bestu mögulegu nýtingu náttúruauðlinda landsins og hvernig unnt er að hámarka verðmætasköpun, gjaldeyrisöflun og atvinnusköpun án þess að ganga ógætilega um auðlindir landsins.

Samtök iðnaðarins hafa mótmælt harðlega fyrirhuguðum orku- og auðlindaskatti sem áætlaður er 16 milljarðar króna skv. fjárlagafrumvarpi. Fyrirhuguð skattlagning birtist fyrirvaralaust án nokkurrar umræðu eða samráðs við helstu þolendur skattlagningarinnar eða hagsmunasamtök á vinnumarkaði. Svo virðist sem sumum ráðherrum ríkisstjórnarinnar hafi ekki einu sinni verið kunnugt um þessi áform þó svo að þau muni að óbreyttu setja verulegt strik í reikninginn hjá mikilvægum greinum og slá verðmætaskapandi verkefni út af borðinu.

Einn ráðherranna, Jón Bjarnason, lýsti því yfir skv. frétt í FB hinn 8. október sl. að orku-, umhverfis- og auðlindaskatturinn ætti ekki að leggjast á fyrirtæki á landsbyggðinni. „Slíkir skattar hafi enda slæm áhrif,“ sagði ráðherrann. Ég átta mig ekki á því hvernig hann hefur hugsað sér slíka útfærslu en hinu er ég sammála, þessi skattlagning hefði slæm áhrif. Vægast sagt slæm, því við gætum misst þúsundir starfa og mikilvægar gjaldeyristekjur ef fjárfestingar sem undirbúnar hafa verið um lengri tíma í góðri trú hyrfu frá okkur.

Tækifæri glatast

Orkuskatturinn gæti komið í veg fyrir að álver í Helguvík risi. Við það glatast 3.000 störf við framkvæmdir á næsta ári og annað eins árið 2011 auk þeirra hundraða framtíðarstarfa sem skapast ef álverið rís. Komi til þessarar skattlagningar er ólíklegt að Alcan í Straumsvík ráðist í 40 milljarða króna fjárfestingu sem þegar hefur verið samþykkt af eigendum álversins en hefur verið sett í bið. Sama gildir um mögulega sólarkísilverksmiðju Elkem í Hvalfirði sem er fjárfesting upp á einn milljarð dollara og gæti skapað 1.000 störf á byggingartímanum og 350 varanleg störf í verksmiðjunni sjálfri.

Áform um að reisa gagnaver og aðrar fjárfestingar í iðnaði á nokkrum stöðum á landinu eru einnig í uppnámi út af þessum óútfærða og vanhugsaða orkuskatti. Að okkar mati mun álagning þessa skatts engu skila í ríkissjóð þegar tekið hefur verið tillit til þess tekjutaps sem ríkið yrði fyrir vegna þeirra verkefna sem glötuðust. Það verður að falla frá þessari skattlagningu þegar í stað til að koma í veg fyrir meiri skaða en þegar er orðinn.

Full ástæða er til að lýsa vanþóknun á vinnubrögðum umhverfisráðherra varðandi úrskurð vegna línulagna til Helguvíkur. Ráðherra fór ekki að lögum með því að virða ekki tímafresti og hefur með vinnubrögðum sínum komið framvindu málsins í algjört uppnám á viðkvæmum tíma þegar unnið er að fjármögnun bæði hjá Norðuráli og þeim orkufyrirtækjum sem koma að verkinu. Öllum ætti að vera ljóst hve staða Íslands er erfið þegar kemur að fjármögnun atvinnulífsins eftir allt sem á undan er gengið. Ekki bætir úr skák þegar viðsemjendum má vera ljóst að pólitískur óstöðugleiki veldur óvæntum tafaleikjum af þessu tagi og vanhugsuðu útspili eins og orkuskatti sem enginn virðist vita hvernig á að útfæra.

Sjálfskaparvíti

Ég geri ekki lítið úr þeim raunverulega vanda sem við er að fást. Stjórnvöld hafa skorað á landsmenn að standa saman um endurreisnarstarfið. Margir bregðast vel við því kalli og með samstillu átaki getum við komist á beinu brautina að nýju. En þá verður ekki unað við sjálfskaparvíti á ábyrgð stjórnvalda.

Ég kalla úrskurð umhverfisráðherra sjálfskaparvíti. Sama á við um fyrirhugaða orkuskatta. Einnig lít ég á hugmynd ríkisstjórnarinnar um fyrningarleið í sjávarútvegi sem sjálfskaparvíti við núverandi aðstæður.

Þó að mér hafi orðið tíðrætt um hagsmuni stóriðjufyrirtækja, ber ekki að skilja orð mín þannig að ég átti mig ekki á mikilvægi annars iðnaðar og annarra atvinnugreina. Það er einfaldlega vegið að stóriðjunni nú á afar viðkvæmum tímum. Við leggjum áherslu á að öll atvinnustarfsemi verði að fá að dafna í frjóu umhverfi til þess að árangur náist í endurreisn Íslands. Gildir það jafnt um smáa sem stóra, hátækni- og nýsköpunarfyrirtæki, sprotafyrirtæki, handverk, mannvirkjaiðnað, matvælagreinina, verksmiðjuiðnað og stóriðju.

Iðnaðurinn mun skila miklum gjaldeyristekjum til þjóðarinnar og miklum gjaldeyrissparnaði, það sama gildir um ferðaþjónustu og sjávarútveg. Við þurfum að nýta öll skynsamleg tækifæri sem bjóðast til að auka gjaldeyrisskapandi starfsemi. Við höfum ekki efni á að hrinda neinum slíkum frá okkur og þess vegna verður ekki unað við áform stjórnvalda.

Ef réttar ákvarðanir verða teknar í stað allt of margra rangra sem þjóðin hefur orðið vitni að í seinni tíð – verða Íslendingar fljótir upp úr öldudalnum. Annars höldum við áfram niður.

Morgunblaðið 21.10.2009