Fréttasafn



  • Mannvirkjagerd4

30. okt. 2009

Bráðvantar nýjar ódýrari íbúðir á markaðinn

Eitt af því sem skapar núverandi vanda á nýbyggingamarkaði er lítið framboð af ódýru húsnæði. Nægt fjármagn, mikil kaupgeta og hækkandi lóðaverð síðastliðin ár varð til þess að of mikið var byggt af stórum lúxusíbúðum. Skipulagsyfirvöld þurfa því að hugsa dæmið upp á nýtt og bjóða lóðir þar sem hægt verður að byggja 2ja og 3ja herbergja íbúðir á ódýrari hátt en verið hefur, m.a. með því að lækka lóðaverð og færa bílastæði upp á lóðir til að losna við dýra bílakjallara.

Fjölmiðar hafa undanfarið flutt fréttir af því að allt sé fullt af óseldum nýjum íbúðum og því þurfi ekkert að byggja fyrr en um mitt ár 2011.  

Ekki skal gert lítið úr því að á markaðinum er mikið til af óseldum íbúðum en þegar farið er að tala um að allt að 3200 íbúðir séu tilbúnar eða nær tilbúnar er rétt að staldra við.  Tölurnar sem vitnað er í eru unnar af VSÓ og Landsbankanum, í þeim kemur fram að 1.474 íbúðir séu tilbúnar undir tréverk eða lengra komnar, 798 fokheldar og hafin sé uppsteypa á 914 íbúðum. Það getur varla talist nánast fullbúin íbúð sem aðeins er komin með sökkla. Að klára 798 fokheldar íbúðir og til viðbótar 914 íbúðir sem eru í uppsteypu er mikið verk sem margar hendur þurfa að vinna. Því er alrangt að tala um að ekkert þurfi að byggja.

Það er líka alrangt að gefa sér að ekki þurfi að hefja byggingu á nýjum íbúðum fyrr en núverandi lager af eldra húsnæði hefur verið seldur. Algengur byggingatími fjölbýlishúss er eitt og hálft ár, þess vegna þarf að byrja að byggja áður en núverandi lager er búinn auk þess sem ekkert óeðlilegt er við það að eitthvað sé til af óseldu húsnæði á hverjum tíma.