Fréttasafn



  • Currency_transfers

17. des. 2009

Viðskiptavinir banka

Fyrirtæki, almenningur og bankar hafa þurft að glíma við afleiðingar hruns fjármálakerfisins, gjaldeyriskreppu, gjaldeyrishöft, hrun gjaldmiðilsins, samdrátt og háan fjármagnskostnað. Friðrik Pálsson hótelhaldari ritaði athyglisverða grein um málið í Morgunblaðið nýlega.

„Ekki þarf að hafa mörg orð um það hve mikil röskun hefur orðið á högum margra á liðnu ári og hve mörg fyrirtæki hafa lent í erfiðleikum,“ segir Jón Steindór Valdimarsson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins. „Sum þeirra eiga sér ekki viðreisnarvon en sem betur fer eru það miklu fleiri sem eiga sér bjarta framtíð ef rétt er á spilum haldið. Gæta verður þess að samskipti fyrirtækja og fjármálastofnana taki mið af þessu og reynt sé að sjá rekstrarhæfum fyrirtækjum fyrir fjármagni og lánafyrirgreiðslu á eðlilegum kjörum og þau sæti ekki afarkostum. Ella er hætt við að fljótt fjölgi í þeim hópi fyrirtækja sem sigla í strand.“

Viðskiptabankarnir þrír hafa nú allir verið endurreistir og eignarhald þeirra er orðið skýrt. Þeim er því ekkert að vanbúnaði að hefja eðlilegan bankarekstur og rækta samband við sína viðskiptavini. Það liggur fyrir að innan bankanna hefur verið unnið mikið og gott starf við að setja upp reglur og verkferla til þess að tryggja eins gegnsæja og trausta verkferla og unnt er í samskiptum banka við viðskiptavini sína, ekki síst þá sem eiga í mestum erfiðleikum og/eða þurfa að endurskipuleggja eignarhald og rekstur undir umsjá bankanna eða eignahaldsfélaga þeirra.

„Nú ríður á að endurvinna traust og trúnaðarsamband banka og fyrirtækja. Skapa verður andrúmsloft samvinnu þar sem markmiðið er sameiginlegt. Arðbær rekstur fyrirtækis sem er um leið viðskiptavinur bankans, nýtur fyrirgreiðslu hans gegn sanngjörnu endurgjaldi í formi þóknana og vaxta. Það er ekki í anda þessa sem banki býður fyrirtæki, sem hann hefur átt í löngu farsælu viðskiptasambandi við, upp á eftirfarandi skilmála í skuldabréfi við endurfjármögnun láns:

„Sakir óvissu um fjármögnun lánveitanda áskilur hann sér einhliða rétt til endurskoðunar á vaxtakjörum lánsins til hækkunar og til breytingar á myntsamsetningu þess (þar með talinn réttur til að breyta láninu yfir í íslenskar krónur eða aðra erlenda mynt ef um er að ræða lán í erlendri mynt) að liðnum þremur mánuðum frá undirritun samnings þessa og síðan á þriggja mánaða fresti. Tilkynna skal um breytinguna innan 14 virkra daga frá því að nefndu tímamarki er náð. Réttur þessi gildir til 1. júní 2010. Breytingar sem tilkynnt er um fyrir þann tíma skulu gilda án tímamarka nema annað sé tekið fram eða breytt samkvæmt heimild í öðrum skilmálum samnings þessa.“

Þessir skilmálar eru úr skuldabréfi sem einu aðildarfyrirtæki SI var gert að gangast undir. Skilmálarnir eru algerlega einhliða og bankinn tekur sér öll völd í hendur. Hvernig er hægt að ætlast til þess að fyrirtæki skrifi upp á óútfylltan tékka af þessu tagi. Þetta er varla grunnur að trausti og farsælum samskiptum. Vissulega er lánastofnunum vandi á höndum og þær verða að fara varlega. Það verður þó að ætlast til þess að bankinn og viðskiptavinurinn deili með sér framtíðaráhættu en ekki að bankinn varpi henni allri á fyrirtækið enda þótt áhættan varði að mestu þætti sem bankinn hefur yfirburða þekkingu á í samanburði við fyrirtækið,“ segir Jón Steindór.