Fréttasafn



  • umbúðin

29. mar. 2010

Plastprent opnar verslun

Ný verslun Plastprents hf. hefur opnað að Fosshálsi 17-25 í Reykjavík. Nokkrir innlendir framleiðendur og heildsalar eru í samstarfi við félagið í kringum verslunina en þeir eru m.a. Oddi, Papco, Besta, Takk Hreinlæti o.fl. smærri aðilar. Nýja verslunin hefur fengið nafnið Umbúðin.

Eins og nafnið ber með sér selur verslunin allar gerðir af umbúðum en ýmis önnur rekstrarvara til stórra sem smærri fyrirtækja eða heimila er til sölu í versluninni.

Lögð er áhersla á Íslenska framleiðslu og samkeppnishæf verð. Umbúðin er því „skynsamur íslenskur valkostur“. Að sögn Sigurðar Þorvaldssonar sölustjóra hefur verið lögð áhersla á að vinna með viðskiptavinum félagsins og eftir fremsta megni taka vörur inn í verslunina sem eru á einhvern hátt tengdar okkar eigin framleiðsluafurðum. „Þannig mun Umbúðin t.d. bjóða upp á einhverjar tegundir af kaffi sem pakkað er í umbúðir framleiddar af Plastprenti en okkar vara kemur víða við“ segir Sigurður. „Verslunin hentar líka þeim sem eru að flytja eða pakka, því þar verður hægt að fá allt á einum stað. Mikil þörf er fyrir þjónustu af þessu tagi og nú hafa viðskiptavinir greiðari aðgang að okkar vörum og þær verða mun sýnilegri“.