Fréttasafn



  • EGF-BIOeffect

20. maí 2010

Íslenskt nýsköpunarfyrirtæki setur byltingarkennda húðdropa á markað

Íslenska nýsköpunarfyrirtækið Sif Cosmetics kynnti í gær EGF BIOeffectTM húðdropa sem eru byltingarkennd nýjung á snyrtivörumarkaði. Droparnir innihalda svokallaðan frumuvaka sem hvetur endurnýjun húðfruma og spornar gegn öldrun húðarinnar. Í nýlegum prófunum á Íslandi sögðu 76% þátttakenda að húð þeirra hefði orðið unglegri og 98% þátttakenda sögðust taka eftir frískara yfirbragð á húðinni eftir notkun húðdropanna. Fjölmargir áhugasamir gestir heimsóttu kynningu fyrirtækisins á EGF BIOeffectTM húðdropunum á Nauthóli í Nauthólsvík.

„Það var frábært að fá þessi sterku viðbrögð frá fólki í dag sem hefur verið að prófa EGF BIOeffect húðdropana okkar. Það staðfestir að langt og strangt vísindastarf við þróun húðdropanna hefur skilað þeim árangri sem að var stefnt. Ég held að það séu ekki margar snyrtivörur sem sýna jafn mikla raunverulega virkni á jafn skömmum tíma og þessi fyrsta vara sem við setjum á markað. Við höfum sett stefnuna á alþjóðlegan snyrtivörumarkað og fyrstu skrefin þangað lofa mjög góðu,“ sagði Dr. Björn L. Örvar, framkvæmdastjóri Sif Cosmetics.

EGF BIOeffectTM húðdroparnir voru kynntir nýlega á in-cosmetics sýningunni í París, sem er ein stærsta sýning í heiminum á nýjungum í snyrtivöruiðnaðinum. Þeir vöktu mikla athygli og í umfjöllun breska blaðsins The Independent voru EGF BIOeffectTM húðdroparnir til dæmis valdir ein af fimm mest spennandi nýjungum sem kynntar voru á sýningunni þetta árið.

Það sem ræður einstakri virkni húðdropanna eru sérvirk prótein, svokallaðir frumuvakar, sem eru framleiddir af líftæknifyrirtækinu ORF Líftækni. Þróun EGF BIOeffectTM húðdropanna fór fram í samvinnu við fremstu vísindamenn landsins á sviði próteintækni, húðlækna og erlend snyrtivörufyrirtæki og með stuðningi frá Rannís. EGF BIOeffectTM húðdroparnir innihalda engin rotvarnarefni, ilmefni eða önnur óþörf innihaldsefni.

Fjölmargar vísindarannsóknir hafa sýnt fram á mikilvægi EGF frumuvaka fyrir starfsemi húðfruma. Helstu niðurstöður rannsóknanna eru að meðhöndlun með EGF frumuvaka stuðlar að endurnýjun húðfruma og eykur virkni þeirra. Kollagenframleiðsla verður meiri sem veldur því að húðin verður stinnari og einnig eykst myndun á elastíni sem eykur teygjanleika húðarinnar. ORF Líftækni hefur undanfarin ár unnið að þróun einstakra framleiðsluaðferða fyrir frumuvaka í byggplöntum. Þessi græna tækni lækkar framleiðslukostnað verulega sem gerir mögulegt að nota mun hærri styrk af frumuvökunum í nýju húðdropana en áður hefur verið hagkvæmt að nota í snyrtivörur.