Fréttasafn



  • Iðnaðarþjarkar í Keili

2. jún. 2010

Stærstu iðnaðarþjarkar á Íslandi við kennslu í tæknifræði hjá Keili

Orku- og tækniskóli Keilis tók nýverið í gagnið tvo iðnaðarþjarka sem ætlaðir eru til kennslu í mekatróník tæknifræði við skólann.

Iðnaðarþjarkarnir eru með þeim stærstu á landinu og sambærilegir þjarkar meðal annars notaðir við bílaframleiðslu. Þeir munu nýtast nemendum í þjarkatækni, svo sem sjálfvirkni, stýritækni og samskiptum iðnaðartækja. Auk þess má nýta þjarkana við forritun í framleiðslukerfum og uppsetningu véla og flæðilína. Iðnaðarþjarkar Keilis eru forritanleg, margnota tæki sem geta hreyft sig um sjö hreyfiása og eru meðal annars nýttir við logsuðu, málun, samsetningu og við eftirliti með framleiðslu. Þeim er ætlað að leysa flókin verkefni á miklum hraða og af mjög mikilli nákvæmni. 

Eimskip styrkti Keili við flutning á þjörkunum til landsins, en fyrirtækið hefur mikinn áhuga á því að efla menntun og þjálfun fólks við iðnstýringar og stýritækni. Koma iðnaðarþjarkar Keilis því að góðum notum við tæknifræðinám á Íslandi í framtíðinni.

Orku- og tækniskóli Keilis býður upp á tvær þverfaglegar námsbrautir í tæknifræði á háskólastigi, orku- og umhverfistæknifræði og mekatróník tæknifræði. Boðið er upp á námið í samstarfi við Háskóla Íslands sem útskrifar nemendur skólans. Kennsla og verklegar æfingar nemenda fara fram í nýuppgerðum kennslustofum á Ásbrú og er fullkomin aðstaða til rannsókna og tilrauna á skólasvæðinu. Orku- og tækniskóli Keilis leggur áherslu á gagnvirk samskipti við fyrirtæki og raunveruleg nemendaverkefni, sem tryggir tengsl nemenda við framþróun og vinnubrögð í atvinnulífinu.

 

Nánari upplýsingar er að finna á heimasíðu skólans: http://www.keilir.net/