Fréttasafn



  • Úthlutun úr Tækniþróunarsjóði 2010

11. jún. 2010

Úthlutun Tækniþróunarsjóðs til nýsköpunarverkefna

Það var margmenni í höfuðstöðvum Marel í Garðabæ þegar úthlutun Tækniþróunarsjóðs til nýsköpunarverkefna var kynnt fimmtudaginn 10. júní. Rannsóknamiðstöð Íslands (RANNÍS) og iðnaðarráðuneytið stóðu að kynningunni sem var sérlega vel sótt.

„Tækniþróunarsjóður er mikilvægasta framlag ríkisins til nýsköpunar í atvinnulífinu,“ sagði Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra í ávarpi sínu á fundinum. Hann gegnir lykilhlutverki í að beisla þann frumkvöðlakraft sem risið hefur til nýrra hæða síðustu tvö ár eins og umsóknir til sjóðsins sýna.
„Endurreisn efnahagslífsins kemur ekki af sjálfu sér,“ sagði ráðherra. „Við þurfum að ráðast í kynningarátak á sjóðnum og þýðingu hans fyrir verðmæta- og atvinnusköpun í landinu. Við þurfum að setja metnaðarfull markmið um verulega stækkun á sjóðnum.“

Hilmar Veigar Pétursson, forstjóri CCP og formaður stjórnar Tækniþróunarsjóðs, tók undir það, enda hafði 3 milljóna króna styrkur sjóðsins til CCP á upphafsárum haft mikla þýðingu fyrir fyrirtækið. Hann sagðist berjast fyrir því að auka framlög til sjóðsins um 300 milljónir króna, sem mundi skila sér margfalt til baka í öflugum nýjum fyrirtækjum.

Marel var sprotafyrirtæki fyrir 30 árum og hefur notið stuðnings Tækniþróunarsjóðs og forvera hans í gegnum árin. Kristinn Andersen, rannsóknarstjóri Marel, fór yfir sögu þessa samstarfs og nefndi fjölmörg dæmi um nýjungar sem sjóðir RANNÍS hafa styrkt og hafa skilað sér í nýrri tækni og aðferðum sem nú er beitt um allan heim við vinnslu á matvælum.

Í lok athafnarinnar sögðu nokkur sprotafyrirtæki sem hlotið hafa styrk úr sjóðnum frá verkefnum sínum í stuttu máli. Þau voru ORF Líftækni, Greenqloud, Saga Medica, DataMarket og Mobilitus.