Fréttasafn



  • Frumtak-fjarfestir-i-IceConsult

17. ágú. 2010

Frumtak fjárfestir í ICEconsult

 

Frumtak hefur fest kaup á hlut í ICEconsult hf. ICEconsult hefur þróað hugbúnað og aðferðafræði til að stýra stoðþjónustu fyrir sveitarfélög, fyrirtæki, þjónustufyrirtæki og verslanakeðjur. Þetta byggir á hugmyndafræði sem nefnist „Facility Management“ sem hefur verið að ryðja sér til rúms á undanförnum tveim áratugum í Evrópu. Almennt má segja að kostnaður fyrirtækja í stoðþjónustu sé um 10 – 20 % af rekstarkostnaði þeirra. Þetta er kostnaður fyrirtækjanna við fasteignir, búnað, ræstingu, orku, öryggisvöktun o.s.frv. Með uppsetningu á tilteknum rafrænum verkferlum og réttum þjónustusamningum er hægt að ná fram ögun og hagræðingu sem skilar um 10 – 30 % sparnaði á þessum þáttum. ICEconsult hefur nú undanfarið staðið í umfangsmikilli endurskipulagningu og hafið öfluga markaðssókn erlendis. Nú er svo komið að félagið hefur samið um dreifingu á MainManager hugbúnaði sínum í Danmörku, Englandi og Möltu, og ráðgerir slíkt hið sama í Noregi og Svíþjóð. Dreifingaraðilar hafa þegar náð að gera samninga undanfarið við stóra viðskiptavini sem gefur tilefni til mikillar bjartsýni.

„Við erum afar ánægð með að hafa fjárfest í ICEconsult“ sagði dr. Eggert Claessen, framkvæmdastjóri Frumtaks. „Þetta er gamalt og rótgróið félag sem hefur einhent sér í nýsköpun og býr yfir miklum möguleikum til vaxtar og útrásar. Við væntum mikils af fyrirtækinu og erum sérstaklega áhugasöm að sjá fyrirtækið nýta sérþekkingu sína í sölu á þessu sviði. Þarna eru mikil tækifæri sem hægt er að nýta með því fjármagni sem fyrirtækið fær með þessari hlutafjáraukningu“.

„Eftir að hafa unnið undanfarin ár með mörgum af helstu fyrirtækjum landsins hefur ICEconsult byggt upp yfirgripsmikla þekkingu á sviði eignaumsýslu. Við höfum einnig sannreynt að mikil þörf er fyrir okkar hugbúnað erlendis þar sem fyrirtæki eru að glíma við nákvæmlega sömu vandamál og íslensk fyrirtæki. Það er því meiri eftirspurn eftir kerfinu í núverandi efnahagsástandi þar sem mikil pressa er á stjórnendum fyrirtækja að hagræða og bæta stoðþjónustuna og tryggja réttar áherslur í viðhaldi eigna. Samstarf ICEconsult og Frumtaks mun gera félaginu kleift að auka áherslu á markaðssetningu og sölu á lausnum sínum”, sagði Gunnlaugur B. Hjartarson, framkvæmdastjóri ICEconsult.

Frumtak er samlagssjóður í eigu Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins, sex af stærstu lífeyris­sjóðum landsins og þriggja banka. Frumtak fjárfestir í nýsköpunar- og sprota­fyrirtækjum sem þykja vænleg til vaxtar og útrásar. Markmið Frumtaks er að byggja upp öflug fyrirtæki sem geta verið leiðandi á sínu sviði og um leið skilað góðri ávöxtun til fjárfesta. Frumtak fjárfestir í fyrirtækjum sem eru komin af klakstigi og er áskilið að fyrir liggi ítarlegar viðskiptaáætlanir.