Fréttasafn



  • Allir vinna

23. nóv. 2010

Allir vinna - Endurgreiðsla VSK af vinnu á byggingastað framlengd til ársloka 2011

Í dag mælir fjármálaráðherra fyrir frumvarpi sem heimilar ársframlengingu á endurgreiðslu VSK af vinnu á byggingastað. Samtök iðnaðarins hafa hvatt ráðuneytið til framlengja heimildinni sem skilað hefur auknum umsvifum á byggingamarkaði. 

Heimildin nær til byggjenda og eigenda íbúðarhúsnæðis og frístundahúsnæðis, auk húsnæðis sem er alfarið í eigu sveitarfélaga eða stofnana og félaga sem alfarið eru í eigu sveitarfélaga.

 „Endurgreiðslurnar hafa verið mikil lyftistöng fyrir byggingamarkaðinn og fjölmargir aðilar sem hafa nýtt sér þessar tímabundnu endurgreiðslur. Það er fagnaðarefni að fjármálaráðherra skuli hafa mælt fyrir frumvarpi sem framlengir átakinu Allir vinna um eitt ár. Það hefur ekki bara skilað sér í auknum umsvifum á byggingamarkaði heldur spornar það líka gegn svartri atvinnustarfsemi.“ Segir Árni Jóhannsson forstöðumaður mannvirkjasviðs Samtaka iðnaðarins.

Í könnun Capacent þar sem árangur verkefnisins Allir vinna var mældur kemur berlega í ljós að átakið hefur mælst vel fyrir. Skilaboðin náðu eyrum almennings og leiddu til aukinna framkvæmda.  

Sjá nánar á allirvinna.is