Fréttasafn



  • Rannveig Rist

30. des. 2010

Rannveig Rist hlýtur viðskiptaverðlaun Viðskiptablaðsins

Rannveig Rist, forstjóri Rio Tinto Alcan á Íslandi, hlýtur Viðskiptaverðlaun Viðskiptablaðsins í ár.

Árni Páll Árnason, efnahags- og viðskiptaráðherra afhenti verðlaunin við árlega athöfn í hádeginu í dag. Samkvæmt frétt á vef Viðskiptablaðsins sagði Björgvin Guðmundsson, ritstjóri Viðskiptablaðsins í ræðu við athöfnina að í þau 14 ár sem Rannveig hefði verið forstjóri hjá Ísal hafi menn ef til vill litið á álverið í Straumsvík sem sjálfsagðan hlut sem muni veita þeim 450 einstaklingum sem þar starfa vinnu til frambúðar. Það sé þó ekki þannig, sérstaklega þegar um er að ræða stór alþjóðleg fyrirtæki.

Rannveig Rist er fyrsta konan í íslensku viðskiptalífi sem hlýtur verðlaunin frá því þau voru afhent fyrst árið 1996.

Þá hlaut hugbúnaðarfyrirtækið Betware Frumkvöðlaverðlaunin Viðskiptablaðsins 2010.

Í rökstuðningi ritstjórnar Viðskiptablaðsins kemur fram að Betware hefur vaxið og dafnað á þeim tíma sem fyrirtækið hefur verið starfandi. Hugmyndina að baki fyrirtækinu, sem er þróun netlausna fyrir lottó og getraunir, má rekja til ársins 1996.

Lesa má viðtöl við Rannveigu og Stefán Hrafnkelsson, framkvæmdastjóra Betware í Áramótablaði Viðskiptablaðsins.