Fréttasafn



  • Vatnsafl

17. feb. 2011

Svandís er dýr eftir Helga Magnússon

Eftir Helga Magnússon formann SI

Svandís Svavarsdóttir, umhverfisráðherra, hefur ítrekað komið í veg fyrir atvinnuuppbyggingu með ólögmætum tafaleikjum til að hamla gegn nýtingu orkuauðlinda og uppbyggingu iðnaðar á Íslandi. Framganga hennar hamlar gegn hagvexti og er þjóðfélaginu dýr. Svandís hefur misbeitt valdi sínu til að koma í veg fyrir atvinnuuppbyggingu og hún hefur gengið út á ystu nöf til að tefja fyrir mikilvægri uppbyggingu í iðnaði á tímum þegar við þurfum mest á því að halda. Þannig  mun enn dragast að hagvöxtur náist aftur á Íslandi með batnandi hag almennings, minna atvinnuleysi og betri möguleikum til að verja velferðarkerfið.

Þegar hún horfist í augu við annan áfellisdóminn í röð – nú frá Hæstarétti, sem staðfestir sektardóm undirréttar yfir henni – þá leyfir hún sér að segja: Hér er um „túlkunarágreining“ að ræða. Það virðist vera allt of sumt! Og bætir svo við: Allt sem ég geri er pólitík. Hún má hafa sína pólitík í friði, en hún getur ekki haft lög landsins og dómstóla í friði fyrir sig. Ráðherra er embættismaður og ber sem slíkum að virða lög landsins, óháð stjórnmálaskoðunum sínum. Sem alþingismaður getur Svandís Svavarsdóttir unnið skoðunum sínum brautargengi á alþingi með lagabreytingum eða þingsályktunartillögum, en henni er ekki heimilt að brjóta lög í þágu skoðana sinna. Ekki frekar en öðrum landsmönnum.

Eða eru hugsjónir og viðhorf stjórnmáalmanna hafin yfir lög og æðsta dómstól  þjóðarinnar, Hæstarétt? Ef svo er, þá ber nýrra við.

ÞJÓNAR LUND SINNI

Svandís Svavarsdóttir hefur gert sig seka um ólíðandi stjórnsýslu í því máli sem Hæstiréttur dæmdi hana seka um þann 10. febrúar sl. Fyrst var málið dregið í rúmt ár í afgreiðslu umhverfisráðuneytisins og svo var synjað staðfestingar án þess að synjunin ætti stoð í lögum. Við Íslendingar stærum okkur af því að hér sé nútímalegt lýðræðisríki, byggt á þróuðu réttarfari. Við höfum jafnvel talað niður til þeirra ríkja sem búa við alræði og geðþóttaákvarðanir valdhafa. Um leið höfum við fagnað því þegar almenningur í slíkum ríkjum rís upp gegn valdníðslunni eins og nú er að gerast í löndum Norður-Afríku. Eigum við þá að sætta okkur við það að ráðherra í ríkisstjórn Íslands líti á sig sem valdhafa sem beitt getur valdníðslu til að þjóna geðþótta sínum? Og eigum við að sætta okkur við að ráðherrann sem þannig gengur fram, njóti sérstakrar verndar forsætisráðherrans?

Ráðherra sem hefur hlotið dóma bæði í hérðasdómi og Hæstarétti fyrir ólögmæta stjórnsýslu hlýtur að segja af sér. Annars verður ráðherrann alls ómarktækur og einskis virði sem handhafi framkvæmdavalds innan ríkisstjórnarinnar. Ef forsætisráðherra sættir sig við dæmda ráðherra í sínu liði, þá hlýtur að vera stutt í endalokin.

Þegar Héraðsdómur Reykjavíkur ógilti ákvörðun Svandísar Svavarsdóttur þann 17. september sl., hvatti formaður Samtaka atvinnulífsins forsætisráðherra til þess í bréfi að láta embættismenn ríkisins falla frá áfrýjun málsins til að koma í veg fyrir frekari tafir.

Vilmundur Jósefsson, formaður SA, sagði m.a. í bréfi sínu til forsætisráðherra:

„Samtök atvinnulífsins álíta að umhverfisráðherra hafi með framferði sínu í þessu máli sýnt óbilgirni og þjónkun við þrönga pólitíska hagsmuni og þar með stórskaðað endurreisn íslensks atvinnulífs. Slíkt framferði gengur þvert á öll loforð forsvarsmanna ríkisstjórnarinnar og hlýtur forsætisráðherra að velta fyrir sér stöðu ráðherra sem þannig haga sér.“

Full ástæða var fyrir forsætisráðherra að velta fyrir sér stöðu ráðherrans sem dæmdur var í Héraðsdómi í september 2010. Enn fyllri ástæða er til að grípa nú til viðeigandi ráðstafana eftir að Hæstiréttur hefur dæmt ráðherrann sekan og þar með staðfest dóm undirréttar. Fyrir liggur samhljóða dómur tveggja dómstiga: Svandís Svavarsdóttir hefur brotið lög sem ráðherra og misbeitt valdi sínu.

AFSÖGN RÁÐHERRA

Ef ráðherra víkur ekki við slíkar aðstæður, þá skulum við hætta öllu tali á Íslandi um bætta stjórnsýslu og það að læra af hruninu og allt sem var rætt um í rannsóknarskýrslu alþingis. Átti ekki að breyta um vinnubrögð á öllum sviðum?  Átti ekki að bæta stjórnsýsluna? Átti ekki að bæta samfélagið?

Eða átti aðhaldið einungis að gilda um tiltekna stjórnmálaflokka og tiltekna hópa í þjóðfélaginu? Átti það t.d. ekki að gilda um þá sem eru vinstri eða grænir eða Vinstri grænir?

Ég lýsi með þessum orðum skoðun minni á þessu máli. Ekki hefur gefist ráðrúm til að kanna viðhorf til þessa alvarlega máls innan Samtaka iðnaðarins.

Mér þykir leitt að segja það en þetta mál verður ekki leyst með öðrum hætti en þeim að umhverfisráðherra segi af sér. Geri Svandís það, verður hún maður að meiri. Ef ekki, þá staðfestir hún hertan brotavilja gagnvart stjórnkerfinu og hagsmunum þjóðarinnar.

Birt í Morgunblaðinu 16. febrúar 2011