Fréttasafn



  • Prósentumerki

2. nóv. 2011

Vaxtahækkun ekki í takt við efnahagsveruleika

Seðlabanki Íslands hækkaði í morgun stýrivexti um 0,25 prósentur. Bjarni Már Gylfason, hagfræðingur SI, segir að þessi ákvörðun bankans hafi komið verulega á óvart og sé ekki takt við það sem búist var við eða sé í takti við það sem undirliggjandi efnahagsástand gefi tilefni til. „Við eigum erfitt með að sjá þennan mikla viðsnúning sem Seðlabankinn segir að sé að verða í hagkerfinu. Bankinn er að hækka hagvaxtaspá fyrir næsta ár og telur að þetta ár verði býsna gott, knúið áfram af einkaneyslu og útflutningi. Gengið er einnig sterkara en búist var við og verðbólga hefur því ekki hækkað jafn mikið og bankinn bjóst við. Þetta eru aðstæður sem gefa ekki beinlínis tilefni til að hækka vexti þótt vissulega sé verðbólga yfir markmiði. Ég tel að þótt hagkerfið sé aðeins byrjað að vaxa þó sé viðsnúningurinn hægur og brotakenndur og það gefi tilefni til lægri vaxta. Raunstýrivextir í Bretlandi, Bandaríkjunum, Nýja-Sjálandi og á Evru-svæðinu séu lægri en hér en þessi lönd hafi samt ekki gengið í gegnum jafn djúpa kreppu og við. Þótt vissulega gangi þokkalega í sumum greinum atvinnulífsins er slakinn í hagkerfinu enn mikill eins og hátt atvinnuleysi gefur greinilega til kynna“, segir Bjarni.

Bjarni segir að þessi ákvörðun sé umhugsunarverð í ljósi þess að blikur séu í lofti í alþjóðlegum efnahagsmálum. „Ég vona sannarlega að bankinn sé ekki að hækka vexti til að reyna draga hingað til lands fjármuni á flótta undan fjármálakreppunni í Evrópu í krafti vaxtamunar. Við erum búin að prófa þá leið og hún endaði illa.“