Fréttasafn



  • Borgartún 35

4. nóv. 2011

Samtök iðnaðarins óska eftir afskiptum Fjármálaeftirlitsins

Samtök iðnaðarins hafa sent bréf til Fjármálaeftirlitsins þar sem farið er fram á að það beini þeim tilmælum til lánastofnana að þær virði skýra og afdráttarlausa niðurstöðu Hæstaréttar, gefi út sambærileg tilmæli til lánastofnana og gefnar voru út til þeirra, þann 30.06.2010 og 14.09.2010 og kalli eftir upplýsingum frá lánastofnunum um lausafjárstöðu og eiginfjárstöðu þeirra.

Með dreifibréfi Fjármálaeftirlitsins til lánastofnana um meðferð rekstrar-, einka- og fjármögnunarleigusamninga, dags. 14.09.2010, beindi Fjármáleftirlitið þeim tilmælum til lánastofnana að á meðan ekki hefði verið endanlega skorið úr um hvort rekstrar-, einka- og fjármögnunarleigusamningar féllu undir gildissvið VI. kafla vaxtalaga og hvort þeir innihéldu óskuldbindandi gengistryggingaákvæði, skyldu meðferð slíkra eignaleigusamninga vera með sama hætti og umræddra kaupleigusamninga viðkomandi lánastofnana. 

Ljóst er að lánastofnanir urðu ekki við umræddum tilmælum Fjármálaeftirlitsins.
 

Þann 20. október sl. kvað Hæstiréttur upp þann dóm í máli Íslandsbanka hf. gegn þrotabúi Kraftvélaleigunnar ehf. (AB 258 ehf.) að fjármögnunarleigusamningur væri í raun lánssamningur. Segir m.a. í dómsniðurstöðunni að þó að samningurinn væri nefndur fjármögnunarleigusamningur væri það heiti nafnið tómt. Gengistrygging samningsins hafði því verið í andstöðu við ákvæði vaxtalaga, sbr. fyrri dóma réttarins frá 16. júní 2010. 

Dómur Hæstaréttar er skýr og afdráttarlaus. Það vakti því furðu að strax í kjölfar dómsuppkvaðningar sendi Lýsing frá sér yfirlýsingu á heimasíðu sinni um að niðurstaða Hæstaréttar hefði ekki fordæmisgildi gagnvart fyrirtækinu þar sem samningur Íslandsbanka væri í veigamiklum atriðum frábrugðinn fjármögnunarleigusamningum Lýsingar. Ekki var að finna í umræddri yfirlýsingu skýringar á því að hvaða leyti samningarnir væru frábrugðnir samningi Íslandsbanka. Á fundi með Lýsingu í gær gengu SI eftir að upplýst væri hver hin frábrugðnu atriði væru. Við því var ekki orðið.

Lögmaður Lýsingar, sem einnig er með kröfu í þrotabú Kraftvélaleigunnar vegna tuga fjármögnunarleigusamninga og skiptastjóri þrotabúsins komu sér saman um að láta einungis flytja mál Íslandsbanka fyrir dómstólum þar sem samningar Íslandsbanka og Lýsingar voru sambærilegir og því ástæðulaust að flytja tvö sambærileg mál á sama tíma fyrir dómstólum. Lögmaður Lýsingar staðfesti umrætt samkomulag í tölvupóstsamskiptum við skiptastjóra þrotabúsins. 

Krafa Lýsingar í þrotabúinu verður tekin fyrir síðar í mánuðinum og mun þá skiptastjóri þrotabúsins leggja fram fyrir dóminn umrædd tölvupóstsamskipti skiptastjóra og lögmanns Lýsingar. Lýsing lýsti því yfir á fundi með SI sl. miðvikudag að fyrirtækið hyggst þá afturkalla kröfu sína í þrotabúið og verður málið þar af leiðandi fellt niður. Á umræddum fundi SI með Lýsingu óskuðu samtökin sérstaklega eftir því að mál Lýsingar gagnvart þrotabúinu yrði flutt fyrir dómstólum þar sem greinargerðir lögmanna eru klárar og því hægt að fá niðurstöðu fljótt í það mál. Ljóst er að slíkt mál fengi flýtimeðferð og auk þess er áfrýjunarfrestur í slíkum málum mun skemmri en í almennum einkamálum, en málsmeðferð sú sama. Lýsing hefur alfarið hafnað þeirri ósk með þeim rökum að fyrirtækið hafi ekki hagsmuni af því að fá niðurstöðu í því máli.

Að mati SI hefði verið hægt að ljúka máli Lýsingar gagnvart þrotabúinu á báðum dómstigum fyrir lok mars á næsta ári.

Þann 16. nóvember nk. verður mál Smákrana ehf. gegn Lýsingu flutt fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur þar sem deilt er um lögmæti fjármögnunarleigusamnings. Lýsing hefur lýst því yfir að það mál verði klárað. Ljóst er að það mál mun enda á borði Hæstaréttar og má vænta niðurstöðu í því máli í fyrsta lagi í nóvember 2012.

Samtök iðnaðarins hafa lýst yfir mikilli óánægju með þessa afstöðu Lýsingar, en nokkur hundruð félagsmanna samtakanna eru með fjármögnunarleigusamninga hjá lánastofnunum sem þarf að endurreikna vegna dómsins. Þær fjárhæðir sem eru undir hlaupa á milljörðum króna. 

Með vísan til umrædds Hæstaréttardóms frá 20. október sl. og afstöðu Lýsingar til fordæmisgildi hans er þess farið á leit við Fjármálaeftirlitið að það beini þeim tilmælum til lánastofnana að þær virði skýra og afdráttarlausa niðurstöðu Hæstaréttar.

Þá er þess farið á leit að Fjármálaeftirlitið gefi út sambærileg tilmæli til lánastofnana og gefnar voru út til þeirra, þann 30.06.2010 og 14.09.2010. 

Loks fara SI þess á leit að Fjármálaeftirlitið kalli eftir upplýsingum frá lánastofnunum um lausafjárstöðu og eiginfjárstöðu þeirra en ljóst er að endurútreikningur á fjármögnunarleigusamningum munu í mörgum tilvikum leiða til þess að að viðskiptavinir viðkomandi lánastofnana hafi ofgreitt. Mikilvægt er að fá úr því skorið hvort allar lánastofnanir geti staðið undir endurgreiðslum til viðskiptavina sinna.