Fréttasafn



  • Alþingi

13. mar. 2012

Afnám gjaldeyrishafta í uppnámi

Alþingi setti í gærkvöldi lög í miklu flýti sem eiga að herða á gjaldeyrishöftum. Lagasetningunni er ætlað að takmarka útflæði gjaldeyris vegna afborgana og vaxta af skuldabréfum en einnig að takmarka undanþágur til að greiða erlendum kröfuhöfum þrotabúa föllnu bankanna í erlendum gjaldeyri. Orri Hauksson, framkvæmdastjóri SI, telur þetta mikið óheillaskref og að viðleitni til að losa um höftin kunni nú að vera í uppnámi.
 
„Allar breytingar á höftunum sem gerðar hafa verið undanfarin ár miða að því að herða þau og fylla í þau göt sem markaðurinn nær að finna. Ef að líkum lætur munu nýjar glufur myndast og vandinn vaxa enn frekar að óbreyttu. Ég óttast að í kjölfar þessarar lagasetningar séum við fjær því en nokkru sinni að afnema höftin. Þetta er hörð aðgerð löggjafans og ég óttast að traust manna á Íslandi muni rýrna enn frekar. Hvernig á að stíga skref til afnáms hafta þegar verið er að herða á höftunum með lagasetningu? Það er kominn tími til að hugsa þetta upp á nýtt“, segir Orri.