Fréttasafn



  • gullegg2012

2. apr. 2012

RemindMe sigrar Gulleggið 2012

Sprotafyrirtækið RemindMe sigraði í frumkvöðlakeppni Innovit, en lokahóf keppninnar fór fram sl. laugardag. Um er að ræða viðskiptahugmynd fimm verkfræðinema á lokaári við Háskóla Íslands.Verkfræðinemarnir fimm eru Ingunn Guðbrandsdóttir, Hildigunnur Björgúlfsdóttir, Ólafur Helgi Guðmundsson, Sveinn Bergsteinn Magnússon og Vaka Valsdóttir.

Um er að ræða sjálfvirkan og læsanlegan lyfjaskammtara sem stuðlar að markvissari lyfjameðferð. Tækinu er ætlað að bæta meðferðarheldni lyfjagjafa en henni er oft ábatavant, sérstaklega hjá öldruðum og þeim sem hafa skert minni. Teymið vinnur nú að frumgerð tækisins og markaðssetningu á alþjóðavettvangi.

Í öðru sæti var sprotafyrirtækið ViralTrade, sem er viðskiptahugmynd Guðlaugs Lárusar Finnbogasonar, og í þriðja sæti var Tónlistarskóli Maxímúsar, viðskiptahugmynd Margrétar Sigurðardóttur.

Aðrar hugmyndir sem komust í hóp efstu tíu teyma keppninnar, sem héldu lokakynningu fyrir dómnefndu voru:

  • Kasy – Kasy er hönnunarfyrirtæki sem sérhæfir sig í hágæðasundfatnaði fyrir konur með línur.
  • Karolina Fund - Karolina Fund er fjármögnunar- og verkefnastjórnunarvettvangur á vefnum fyrir aðila tengda skapandi greinum.
  • MÁM (Markaðsmál á mannamáli) – Markaðsmál á mannamáli-kerfið eykur markaðslega færni lítilla fyrirtækja og veitir þeim yfirsýn og aðhald í markaðsstarfinu, sem hvort tveggja leiðir til aukins árangurs.
  • Reykjavík Runway – Reykjavík Runway er sölu- og markaðsfyrirtæki fyrir íslenska fatahönnuði á alþjóðamarkaði.
  • Padded Caps – Padded Caps eru golfderhúfur, sem líta út eins og hefðbundnar derhúfur, en eru með innbyggðri höfuðvernd sem verndar golfspilara fyrri höggum af völdum golfbolta.
  • Sit Stretch – SitStretch er einfalt og skemmtilegt forrit sem leiðbeinir á myndrænan og hvetjandi hátt skrifstofu- og öðru kyrrsetufólki að teygja sig reglulega til að auka vellíðan og forðast algenga kvilla sem oft fylgja langri kyrrsetu.
  • Insidememo – Næstu kynslóðar upplýsinga- og fjölmiðlun fyrir fyrirtæki.

Lokadómnefnd keppninnar, samanstóð af 14 sérfræðingum sem hlustuðu á kynningar efstu tíu hugmyndanna. Í dómnefndinni sátu: Ásgeir Ásgeirsson, framkvæmdastjóri vöruþróunar Marel, Baldur Már Helgason, fjárfestingastjóri hjá Auður Capital, Benedikt K. Magnússon, partner hjá KPMG, Björn Brynjólfsson, Thule Investment, Eggert Claessen, framkvæmdastjóri Frumtaks fjárfestingasjóðs, Guðmundur Siemsen, framkvæmdastjóri Advel lögmenn, Hekla Arnardóttir, fjárfestingastjóri hjá NSA, Hermann Ottósson, forstöðumaður markaðsþróunar Íslandsstofu, Hjördís D. Vilhjálmsdóttir, framkvæmdastjóri hjá Landsbankanum, Katrín Dóra Þorsteinsdóttir, forstöðumaður hugverkaiðnaðar og menntamála hjá SI, Liv Bergþórsdóttir, framkvæmdastjóri Nova, Páll Harðarson, forstjóri Kauphallar Íslands, Þórður Magnússon, framkvæmdastjóri Eyrir Invest, Þórlindur Kjartansson, stjórnarformaður Innovit

Gullbakhjarlar keppninnar voru Landsbankinn, Marel, Advel, Nova og KPMG. Aðrir bakhjarlar voru Alcoa, Kauphöll Íslands – Nasdaq OMX, Thule Investments, Eyrir Invest, Íslandsstofa, Tækniþróunarsjóður, Stefna Hugbúnaðarhús og Menntamálaráðuneytið.

Innovit vill koma sérstökum þökkum á framfæri til bakhjarla keppninnar sem og öllum þeim frábæra hópi sem aðstoðaði við framgöngu verkefnisins. Alls voru 12 nemendur frá Háskóla Íslands og Háskólanum í Reykjavík sem skipulögðu keppninna og rúmlega 70 sérfræðingar í rýnihóp sem komu að því að lesa yfir viðskiptaáætlanir. Þá komu fjölmargir sérfræðingar að öllum námskeiðum og öðrum leiðbeiningum sem snéru að keppninni. Án þessa hóps hefði verkefnið aldrei orðið að veruleika og þökkum við því kærlega fyrir allan það framlag sem einstaklingar og fyrirtæki hafa lagt í verkefnið.