Fréttasafn



  • Nýbyggingar

9. maí 2012

Vinnusmiðja um áhrif gæðastjórnunar á mannvirkjagerð

Stofnað verður til vinnusmiðju um áhrif gæðastjórnunar á mannvirkjagerð 29. maí nk.  þar sem verktakar, verkkaupar og aðrir áhrifavaldar og hagsmunaaðilar af öllum stærðum og gerðum, auk sérfræðinga á sviði mannvirkjagerðar og/eða gæðastjórnunar verði meðal þátttakenda.

Vinnusmiðjan er liður í doktorsverkefni Önnu Huldu Ólafsdóttur, en eitt af markmiðum verkefnisins að þróa orsakalykkjurit af þeim áhrifum sem gæða- og ferlastjórnun hefur á mannvirkjagerð og í kjölfarið setja fram kvikt kerfislíkan sem vonandi getur gefið niðurstöður um fjárhagslegan ávinning af notkun gæða- og ferlastjórnunar hjá verktökum í mannvirkjagerð.

Til þess að fá sem réttasta mynd af þeim orsakatengslum sem tengjast kerfinu verða haldnar 2-3 vinnusmiðjur með það að markmiði að ná fram sameiginlegum skilningi hagsmunaaðila á því hvernig kerfið virkar. Sérfræðingur á sviði kvikra kerfislíkana, Harald Sverdrup, prófessor við Háskólann í Lundi, mun koma þátttakendum í tæri við heillandi heim aðferðafræðinnar. Helgi Þór Ingason, dósent við tækni og verkfræðideild Háskólans í Reykjavík og Anna Hulda Ólafsdóttir, doktorsnemi við verkfræðideild Háskóla Íslands munu svo kynna þátttakendum fyrir aðferðafræði gæðastjórnunar.

Niðurstaða verkefnisins getur orðið leiðarljós til að bæta og samræma vinnubrögð hagsmunaaðila og áhrifavalda til markvissrar innleiðingar gæðastjórnunar til framleiðniaukningar í mannvirkjagerð.

Sjórnendum verktakafyrirtækja, verkkaupa, skóla eða annarra hagsmunaaðila eða áhrifavalds er boðið að taka þátt í þessu einstaka verkefni um áhrif gæðastjórnunar á mannvirkjagerð.

Vinnusmiðjan verður haldin þann 29. maí kl. 9.30 – 16.00 í húsnæði Endurmenntunar Háskóla Íslands, Dunhaga 7, Neista.

Allir áhugasamir, vinsamlegast hafið samband við Ferdinand Hansen og Friðrik Ágúst Ólafsson hjá SI eða Önnu Huldu í síma 844 8904 eða í e-mail: aho4@hi.is. Frekari upplýsingar um verkefni má finna HÉR