Fréttasafn



  • MentorDatamarket

7. jún. 2012

Mentor og DataMarket vinna saman að því að auka árangur í skólastarfi í Evrópu

Mentor og DataMarket skrifuðu undir samstarfssaming í vikunni. Fyrirtækin þróa saman einingu sem verður kynnt sem hluti af InfoMentor kerfinu í fimm löndum.

Sveitarfélögum og skólastjórnendum verður gert mögulegt að fylgjast betur með frammistöðu í sínum skólum með það að markmiði að vinna að umbótum í skólastarfi. Kennarar fá í hendur nýja einingu sem er hluti af InfoMentor kerfinu til að vinna markvisst að auknum árangri nemenda. Síðast en ekki síst er þarna um að ræða verulega byltingu í aðgengi og framsetningu upplýsinga fyrir nemendur og foreldra að frammistöðu og framvindu í skóla.

„Það er spennandi að leiða saman þá þekkingu og reynslu sem við í Mentor höfum í hönnun og þróun á upplýsingakerfi fyrir skóla og sérþekkingu DataMarket á framsetningu og úrvinnslu upplýsinga“ segir Vilborg Einarsdóttir, framkvæmdastjóri Mentors.

„Samstarfið við Mentor opnar nýjar leiðir og nýja markaði fyrir okkur hjá DataMarket. Það er gríðarlega áhugavert að vinna með Mentor að því að auka árangur í skólastarfi bæði hér heima og í Evrópu“ segir Agnar Jón Ágústsson hjá DataMarket.

Akureyrarbær, Garðabær og Menntamálaráðuneytið eru samstarfsaðilar að verkefninu á Íslandi sem er styrkt af Tækniþróunarsjóði.

Einingin styrkir InfoMentor til muna og er mikilvægt skref í átt að framtíðarsýn Mentors sem er að verða í fararbroddi á sviði upplýsingakerfa fyrir skólasamfélagið í Evrópu með áherslu á einstaklingsmiðun og gæðastjórnun.