Fréttasafn



  • Betware_Gaming_Platform

11. jún. 2012

CIRSA Corporation tekur í notkun leikja- og hugbúnaðarlausn Betware

Spænska leikjafyrirtækið CIRSA Corporation tilkynnti í síðustu viku að fyrirtækið væri búið að taka í notkun leikja- og hugbúnaðarlausn íslenska hugbúnaðarfyrirtækisins Betware fyrir Internet og snjallsímavefi fyrirtækisins á Spáni.

CIRSA, sem er leiðandi fyrirtæki í leikjaiðnaði á Spáni og í spænskumælandi löndum, er þar með eitt af fyrstu fyrirtækjunum til að taka í notkun leikjalausnir sem falla að nýjum reglum á spænskum markaði.

Sonia Carabante, framkvæmdastjóri netleikja hjá CIRSA segist fullviss um að framúrskarandi samsetning leikjalausna frá hugbúnaðarframleiðendum auki á velgengni fyrirtækisins á sviði Internet leikjalausna. “Betware hefur gegnt lykilhluverki við að samhæfa allar bestu leikjalausnirnar sem við viljum bjóða viðskiptavinum okkar.”

Cirsa er með höfuðstöðvar á Spáni. Fyrirtækið er leiðandi á heimsvísu í leikjaiðnaði og taldir vera fremstir á sínu sviði á Spáni. Cirsa rekur 33 hefðbundna spilasali, 81 rafræna spilasali, 32.930 spilakassa, 88 bingósali og 200 íþróttaleikjasali á Spáni, Ítalíu og Mið- og Suður Ameríku.

Betware er framsækið íslenskt hugbúnaðarfyrirtæki á sviði leikja- og hugbúnaðarlausna með yfir 16 ára reynslu á sínu sviði. Fyrirtækið hefur fengið ISO 270001 öryggisvottun og SCS vottun frá World Lottery Association. Betware sérhæfir sig í hugbúnaðarþróun fyrir leikjaiðnaðinn og starfar einungis með fyrirtækjum sem hafa tilskilin leyfi frá yfirvöldum í sínu landi.

Betware býður viðskiptavinum sínum upp á alhliða lausn fyrir leiki á Internetinu. Betware býður upp á lottó-, skafmiða-, casino-, póker-, bingó- og afþreyingarleiki. Lausn fyrirtækisins gerir viðskiptavinum jafnframt kleift að bæta ofan á lausnina leikjum frá þriðja aðila.

Auk Cirsa eru meðal viðskiptavina Betware Íslensk getspá, Íslenskar getraunir, Happdrætti Háskólans,  danska ríkislóttóið, spænska ríkislottóið,  fylkislottóið í Bresku Kólumbíu í Kanada og Grupo EGASA á Spáni.

Hjá Betware starfa ríflega 100 starfsmenn. Höfuðstöðvar Betware eru á Íslandi, auk þess sem fyrirtækið er með skrifstofur í Danmörku, Spáni, Serbíu og Kanada.