Fréttasafn



  • Borgartún 35

16. júl. 2012

SI bjóða fyrirtækjum þátttöku á nýju námskeiði: umsóknarfrestur framlengdur

Samtök iðnaðarins bjóða fyrirtækjum að taka þátt í þriggja mánaða prógrammi sem miðar að því að fara í gegnum stöðu, stefnu og framtíðarsýn fyrirtækja með tækifæri og nýsköpun að leiðarljósi. Prógrammið er unnið í samvinnu við Klak – Nýsköpunarmiðstöð atvinnulífsins, Háskólann í Reykjavík og Háskóla Íslands og er rekið sem hluti af Viðskiptasmiðju Klaks.

Samtök iðnaðarins telja þetta mikið tækifæri fyrir stjórnendur sem vilja læra á sama tíma og þeir undirbúa fyrirtæki sín fyrir frekari vöxt og árangur. Virði prógrammsins er um 550.000  kr. en SI og Klak – Nýsköpunarmiðstöð atvinnulífsins niðurgreiða Viðskiptasmiðjuna um 500.000 kr. þannig að kostnaður fyrirtækis er einungis 50.000 kr. Einungis fimm fyrirtæki verða stutt að þessu sinni.

Fyrirtækjum gefst kostur á að rækta möguleika fyrirtækisins til þess að vaxa og dafna með aðferðafræði sem hefur verið þróuð við virtustu viðskiptaháskóla Evrópu sem miðar að því að þjálfa leiðtoga í framþróun fyrirtækja. Viðskiptasmiðjan er sambland af vinnustofum, ráðgjöf, námskeiðum og verkefnamiðaðri aðferðafræði. Í lok prógrammsins munu stjórnendur fyrirtækja hafa:

-          Möguleikakort til þess að undirbyggja stefnumótandi ákvarðanir

-          Stefnumótunaráætlun til skemmri og lengri tíma

-          Leiðarkort í nýsköpun

-          Þekkingu og færni sem styrkir þá sem leiðtoga

Prógrammið er hannað með upptekna framkvæmdastjóra í huga. Vinnustofur og námskeið eru frá 17 – 21:00 á kvöldin og fundartímar eftir samkomulagi.

Umsóknarfrestur er til 30. ágúst umsókn sendist til klak@klak.is – með nafni fyrirtækis og þátttakenda (mest þrír frá einu fyrirtæki), ásamt ástæðu fyrir umsókn.

Prógrammið hefst 17. september 2012. 

Frekari upplýsingar veita: Dr. Eyþór Ívar Jónsson eythor@klak.is og Davíð Lúðvíksson, SI david@si.is