Fréttasafn



  • SSPlogo2012

11. sep. 2012

Fjármögnunarumhverfi fyrirtækja

Grein eftir Sigmar Guðbjörnsson, framkvæmdstjóra Stjörnu-Odda og formann Samtaka sprotafyrirtækja um fjármögnunarumhverfi fyrirtækja birtist í Morgunblaðinu í gær. Fleiri greinar eftir Sigmar um málefnið munu birtast í blaðinu á næstunni.

Fjármögnunarumhverfi fyrirtækja

Hlutabréf leika lykilhlutverk við stofnun og uppbyggingu fyrirtækja á Íslandi og því mikilvægt að umhverfið tengt slíkum viðskiptum sé bæði til staðar og aðgengilegt fyrir bæði kaupendur og seljendur hlutabréfa. Eftir því sem fyrirtækin stækka því mikilvægari verður hlutabréfasala, til þess að standa undir fjármögnun á uppbyggingu fyrirtækja. Þegar um stofnun nýrra og minni fyrirtækja er að ræða og verkefni eru nær hugmyndarstiginu, þá er yfirleitt um minni fjárhæðir að ræða sem fjármagnast oft með fjármagni frá frumkvöðlinum, fjölskyldu og vinum. Hugsanlega ef um er að ræða rannsóknar- og þróunarverkefni styrkt að hluta til af samkeppnissjóðum eins og Tækniþróunarsjóð sem styður þá um leið við uppbyggingu félagsins. Þegar félag fer í stækkunarferli þá er þörf á að fleiri komi að fjármögnuninni og hlutabréf leika enn stærra hlutverk, sérstaklega ef viðkomandi félag

hefur ekki auðvelt aðgengi að lánsfjármagni. Ekki er óalgengt að frumkvöðulinn taki lán til frekari hlutabréfakaupa í félaginu og hugsanlega aðrir starfsmenn líka sem hafa trú á félaginu og eru tilbúnir að taka þátt í áhættunni og uppbyggingunni. Stundum koma utanaðkomandi áhættufjárfestar einnig að slíkri uppbyggingu með hlutabréfakaupum. Í eftirfarandi grein er reynt að skoða nánar stöðuna hjá fyrirtækjum hér á landi: 

Hlutafé:

Raunveruleikinn í dag er sá að á Íslandi er hlutabréfavelta og eign í óskráðum félögum margalt meiri en sú velta og eignarhald sem á sér stað í gegnum hinn formlega hlutabréfamarkað. Fæst Íslenskra fyrirtækja munu nokkru sinni rata í viðskipti í kauphöll, og því er það mikilvægt að skapa farveg þar sem fyrirtæki og einstaklingar geta selt og keypt hlutabréf í óskráðum félögum. 

Lán til hlutabréfakaupa:

Frumkvöðullinn þarf að hafa aðgengi að lántöku fyrir sínum hlut í fyrirtæki sínu. Mikilvægt er að lánastofnanir sýni frumkvöðlum stuðning og veiti þeim lán til slíkra fjárfestinga. Þetta eru lán sem frumkvöðulinn skuldbindur sig til að greiða til baka og viðkomandi lánastofnun setur sitt traust á viðkomandi frumkvöðul. Segja má að lánastofnunin sé að sækja viðskipti til viðkomandi frumkvöðuls og fá hann í viðskipti til sín. Ef um marga frumkvöðla er um að ræða að hjá sama félagi, þá geta slíkar lánsupphæðir skipt miklu fyrir uppbyggingu fyrirtækisins.

Gjaldeyrishöft

Það gæti verið lausn að opna fyrir aflandskrónur til fjármögnunar í íslenskum félögum, sem þannig myndi binda aflandskrónur í félögum á Íslandi til lengri tíma, sem svo aftur styður við afnám gjaldeyrishafta.

Innlendir fjárfestar standa hins vegar ekki jafnfætis erlendum þegar kemur að því að kaupa hluti í íslenskum fyrirtækjum komi þeir með gjaldeyri inn í landið þar sem þeir fá beint afslátt af fjárfestingunni. 

Ættu ekki sömu kjör að bjóðast innlendum aðilum/útflytjendum hjá Seðlabankanum, sem yrði hvati innlendra aðila til að fjárfesta á Íslandi? Þessa aðstöðu mætti líka jafna í gegnum skattakerfið fyrir þá sem greiða skatt á Íslandi. Hvernig sem því líður þá skiptir máli að hefja undirbúning að því að afnema gjaldeyrishöftin á sýnilegan og skipulagðan máta, setja fram áætlun um hvað verður gert og hvenær.

Morgunblaðið 10. september 2012