Fréttasafn



  • SUT

27. nóv. 2012

Góð eftirspurn eftir vörum og vilji til að auka útflutning

Haldinn var fjölmennur kynningarfundur á vegum Íslandsstofu á kortlagningarvinnu upplýsingatæknigeirans en rúmlega áttatíu manns úr faginu mættu til að kynna sér helstu niðurstöður vinnunnar.

Íslandsstofa í samstarfi við SUT réðust í það metnaðarfulla verkefni að kortleggja greinina til að sjá hvar samstarfsfletir liggja út frá bæði gerð fyrirtækja og þeirra áhersluþáttum í markaðssetningu. Útkoman er skýrsla sem notuð verður sem leiðarljós í framhaldinu.

Jón Ásbergsson, framkvæmdastjóri Íslandsstofu setti fundinn en að því loknu kynnti Vilhjálmur Jens Árnason, verkefnisstjóri, helstu niðurstöður skýrslunnar, en efni hennar byggir á könnun meðal 70 fyrirtækja í greininni.

Góð eftirspurn er eftir vörum og þjónustu íslenskra upplýsingatæknifyrirtækja og 80% fyrirtækjanna telja að hægt sé að auka útflutning enn frekar. Ætla má að erlend umsvif þeirra fyrirtækja sem talað var við nemi um 37 milljörðum króna, en fyrirtækin selja vörur og þjónustu um allan heim og eru með starfsemi í 19 löndum. Fyrirtækin sem talað var við eru með um 3300 starfsmenn, en af þeim eru 2100 hér á landi. Upplýsingatækniiðnaðurinn hefur vaxið hratt hér á síðustu tuttugu árum og hefur skipað sér á bekk með helstu útflutningsatvinnuvegum landsins.

Íslendingar státa af góðum innviðum þegar kemur að upplýsingatækni. Tölvu- og internetnotkun er mikil, notuð er græn orka og öflug fyrirtæki hafa töluverða sérstöðu þegar kemur að hugbúnaðargerð í tengslum við grunnatvinnuvegina. Fyrirtækin þykja hafa góða breidd í þekkingu og geta tekist á við fjölþætt vandamál. Starfsmenn eru fljótir að bregðast við og eru sveigjanlegir. Það sem helst torveldar að fyrirtæki geti aukið umsvifin er mannekla, gjaldeyrishöft og háir skattar.

Talið er að miklir möguleikar geta falist í því hér á landi að auka samvinnu með því að nýta klasahugmyndafræði í upplýsingatæknigeiranum. Með því væri hægt að efla greinina, nýta mannafla betur og skapa meiri virðisauka.

Hermann Ottósson, forstöðumaður markaðsþróunnar hjá Íslandsstofu, kynnti verkefnaáætlun sem áætlað er að vinna í samvinnu við upplýsingatæknifyrirtæki. Að lokum tók Magnús S. Norðdahl hjá LS Retail til máls en hann situr jafnframt í stjórn SUT (Samtök upplýsingatæknifyrirtækja). Magnús hvatti menn m.a. til aukinnar samvinnu í þeim verkefnum sem framundan eru, enda er það einn af þeim þáttum sem geirinn kallar augljóslega eftir.

Það eru mörg tækifæri fyrir hendi í íslenskum upplýsingatækniiðnaði, og þessi kortlagning mun auðvelda vinnu í framhaldinu. Þá mun Íslandsstofa ráðast í markaðstengd verkefni á næstu tveimur árum, og ljóst er að mikill áhugi er á frekari samvinnu fyrirtækjanna. Það er því mikil ástæða til bjartsýni í framtíð íslenskrar upplýsingatækniiðnaðar.