Fréttasafn



  • EGF-BIOeffect

11. des. 2012

Íslensku EGF húðdroparnir mest selda snyrtivaran hjá evrópskum flugfélögum

Íslensku EGF húðdroparnir frá  Sif Cosmetics eru mest selda snyrtivaran í flugvélum Lufthansa, Air France og Swiss og í öðru sæti í  vélum British Airways. Þessi árangur hefur náðst í samkeppni við heimsþekkt vörumerki eins og Estée Lauder, L‘Oreal, Guerlain og La Prairie. Samkvæmt British Airways eru Húðdroparnir eitt besta dæmið um velheppnaða markaðssetningu um borð í vélum félagsins.

 

Sala húðdropanna hófst erlendis fyrir aðeins tæpum tveimur árum, undir vörumerkinu BIOEFFECT. Þeir eru nú seldir í mörgum virtustu snyrtivöruverslunum Evrópu, meðal annars í Selfridges og Harvey Nichols í London, La Rinascente í Mílanó og Colette í París og í á annað hundrað verslunum um alla Evrópu. Í Colette, einni frægustu lífstílsverslun Parísar, eru húðdroparnir mest selda snyrtivaran frá upphafi.  

Björn Örvar, framkvæmdastjóri Sif Cosmetics, segir að grunnurinn að góðum árangri húðdropanna á erlendum markaði, eins og hér heima, sé einstök virkni þeirra sem spyrjist fljótt út. „Það er hins vegar gríðarlega hörð samkeppni á þessum markaði og ekki sjálfgefið að fólk trúi okkur endilega frekar en öðrum þegar við tölum um vísindi og einstaka virkni. Í því samhengi hefur góð ímynd Íslands skipt meginmáli fyrir okkur sem og uppruni vörunnar í líftæknirannsóknum. Við höfum einnig gætt okkur á því að láta virkni Húðdropanna tala sínu máli og ekki reyna að keppa beint við stóru snyrtivörufyrirtækin sem fyrst og fremst nota auglýsingar til að markaðssetja sínar vörur.“

Sif Cosmetics, dótturfyrirtæki ORF Líftækni hf., var stofnað árið 2009. Fyrirtækið þróar og selur hágæða húðvörur á vísindalegum grunni. EGF húðvörur fyrirtækisins eru einu húðvörurnar á markaði á Íslandi sem innihalda frumuvaka sem eru náttúrulegir húðinni og stuðla að endurnýjun hennar. Frumuvakarnir eru framleiddir í samstarfi við ORF Líftækni hf. sem hefur þróað einstakar framleiðsluaðferðir, byggðar á íslensku hugviti, þar sem byggfræ er notað sem smiðja til að framleiða frumuvakana.