Fréttasafn



  • Lettland-september-2008-055

4. jan. 2013

Sorpa braut samkeppnislög

Samkeppniseftirlitið hefur lagt 45 milljón króna sekt á Sorpu fyrir brot á samkeppnislögum. Telur eftirlitið að Sorpa hafi brotið gegn samkeppnislögum með því að misnota markaðsráðandi stöðu sína á markaði fyrir flokkun og meðhöndlun úrgangs. Í niðurstöðunni sem birt var skömmu fyrir jól kemur fram að þetta hafi Sorpa gert með því að veita eigendum sínum, þ.e. sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu, hærri afslætti en öðrum viðskiptavinum, s.s. sorphirðufyrirtækjum, jafnvel þó fyrirtækin kæmu með meira magn af sorpi en sveitarfélögin í móttökustöð Sorpu í Gufunesi. 
 

Er það mat Samkeppniseftirlitsins að þessir mismunandi afslættir hafi haft skaðleg áhrif á samkeppni sem birtust m.a. í útboði Hafnarfjarðarbæjar á sorphirðu árið 2009 og einnig í samningi sem Sorpa gerði við Sorpstöð Suðurlands. Í þeim samningi veitti Sorpa sorpstöðinni talsvert hærri afslætti en einkareknum sorphirðufyrirtækjum og öðrum viðskiptavinum býðst samkvæmt almennri gjaldskrá. Umræddir afslættir Sorpu taka því ekki mið af því kostnaðarhagræði sem felst í auknum viðskiptum sem áskilið er þegar um viðskipti markaðsráðandi fyrirtækja er að ræða.   

Í málinu hefur Sorpa réttlætt aukna afslætti til sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu á þeim grundvelli að um væri að ræða arðgreiðslur til eigenda. Því til stuðnings hefur Sorpa vísað m.a. til ákvæða laga sem fyrirtækið starfar eftir, annars vegar laga um meðhöndlun úrgangs og hins vegar sveitastjórnarlaga. Samkeppniseftirlitið fellst ekki á rök Sorpu enda ekkert í þessum lögum sem heimilar þeim arðgreiðslur í því formi sem um ræðir. Að mati eftirlitsins er Sorpa fyrirtæki sem stundar atvinnurekstur í skilningi samkeppnislaga og er í samkeppni á mörgum sviðum við einkafyrirtæki eins og t.d. sorphirðufyrirtæki. Af þessu leiðir að Sorpa verður að gæta að því að háttsemi byggðarsamlagsins hafi ekki skaðleg áhrif á þeim sviðum sem það starfar í samkeppni við önnur fyrirtæki.

Samtök iðnaðarins telja að ákvörðunin undirstriki að fyrirtæki í eigu opinberra aðila sem starfa á samkeppnismörkuðum lúta sömu lögmálum og önnur fyrirtæki. Samkeppniseftirlitið bendir á í ákvörðun sinni að þegar markaðsráðandi fyrirtæki grípa til aðgerða sem hafa skaðleg áhrif á samkeppni stuðla þær ekki að bættum almannahagsmunum heldur þvert á móti skaða þær hagsmuni neytenda og þjóðfélagsins alls. Samkeppniseftirlitið fellst ekki á það sjónarmið Sorpu að umræddir afslætti eða arðgreiðslur byggðasamlagsins sé unnt að réttlæta á grundvelli almannahagsmuna eða neytendaverndar.

Hér má lesa frétt Samkeppniseftirlitsins um málið.