Fréttasafn



  • Frumkvöðlaverðlaun 2012

10. jan. 2013

Forstjóri Marorku hlaut Frumkvöðlaverðlaun Viðskiptablaðsins

Jón Ágúst Þorsteinsson, stofnandi og forstjóri Marorku hlaut Frumkvöðlaverðlaun Viðskiptablaðsins árið 2012. Verðlaunin voru afhent við hátíðlega athöfn 28. desember sl. á Hótel Sögu. 

Í frétt Viðskiptablaðsins segir að starfsemi Marorku sé gott dæmi um mikilvægt frumkvöðlastarf. Í þessu tilviki sé frumkvöðullinn á undan sinni samtíð því ljóst sé að skipaútgerðir munu gera samskonar kröfu um hagræðingu í rekstri skipaflota heimsins og nú þegar hefur verið gert bæði í bíla- og flugvélaframleiðslu. Það komi til vegna aukinnar áherslu á eldsneytissparnað og ekki síst vegna umhverfismála þar sem áhersla er lögð á að draga úr loft- og hafmengun. Vaxtatækifæri Marorku séu því gríðarleg. Um 50 þúsund skip gætu notað búnað Marorku þegar fram í sækir.

Marorka er öflugt hugbúnaðarfyrirtæki og helstu verkefni félagsins miða að því að þróa búnað sem ætlað er að draga úr eldsneytiskostnaði skipaflotans. Þessi þróun er rétt að byrja en Marorka er nú þegar leiðandi á sínu sviði í heiminum með áherslu á orkunýtingu í skipaiðnaði.

Meðal viðskiptavina Marorku eru Eimskip, Samskip, fjölmörg sjávarútvegsfyrirtæki, danska skipafélagið Mærsk, kínverska félagið Cosco Group og fleiri.

Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair Group hlaut Viðskiptaverðlaun Viðskiptablaðsins.