Fréttasafn



  • utmessan2013

14. feb. 2013

Um 5 þúsund manns á UT messu 2013

Um 5 þúsund manns mættu á opið hús UT messunnar laugardaginn 9. febrúar. Yfir 700 manns voru á ráðstefnu UTmessunnar sem haldin var á föstudeginum og tókst gífurlega vel.

Tilgangur UTmessunnar, sem er einn stærsti viðburður ársins í tölvugeiranum, er að sýna almenningi hversu stór og umfangsmikill þessi grein er orðin hér á landi en öll helstu tölvu- og tæknifyrirtæki landsins og taka þátt með einum eða öðrum hætti og hvetja þannig fólk til að kynna sér um hvað tölvuiðnaðurinn snýst.

Boðið var upp á tugi áhugaverðra fyrirlestra, sýningu, keppnir, kennslu og afhendingu verðlauna.

Hilmar Veigar Pétursson, framkvæmdastjóri CCP, fékk UT verðlaun Ský 2013 en þetta er í fjórða sinn sem verðlaunin eru afhent. Í rökstuðningi valnefndar segir að Hilmar Veigar sé góð fyrirmynd og frumkvöðull.

„Hann hefur verið óþreytandi í að vinna með og styðja menntastofnanir, allt frá grunnskóla upp í háskóla, þegar kemur að upplýsingatæknimiðuðu námi. Hilmar er verðug fyrirmynd unga fólksins og sýnir svo ekki verður um villst að hægt sé að ná langt með þrautseigjunni og að ekkert gerist ef ekki er haldið af stað og haldið áfram þó að móti blási. Hann hefur einnig  í gegnum starf sitt hjá CCP og samtökum upplýsingafyrirtækja aukið almennan áhuga á upplýsingatækni og nýsköpun.“

Það var forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, sem afhenti Guðrúnu E. Stefánsdóttur, eiginkonu Hilmars Veigars, verðlaunin á UTmessunni, en Hilmar var staddur erlendis starfa sinna vegna.