Fréttasafn



9. okt. 2013

Málþing um Árna Vilhjálmsson prófessor

Málþing í minningu Árna Vilhjálmssonar prófessors, sem lést 5. mars 2013, verður haldið í hátíðasal Háskóla Íslands 14. október 2013, kl. 17–19. Árni var virtur og vinsæll fræðimaður og kennari, en einnig dugmikill framkvæmdamaður, sem sat í stjórn fjölmargra atvinnufyrirtækja. Þar á meðal voru Flugleiðir, Kassagerðin, Ármannsfell, Nýherji, Hampiðjan, Verðbréfaþing og Venus. Árni rak ásamt félögum sínum eitt öflugasta útgerðarfyrirtæki landsins, Granda.

Hann fæddist 11. maí 1932 og stundaði nám í fjármálafræðum í Harvard-háskóla og Oslóarháskóla. Með námi og að því loknu starfaði hann meðal annars hjá Alþjóðabankanum í Washington og í Framkvæmdabankanum og viðskiptaráðuneytinu, en varð 1961 prófessor í viðskiptadeild Háskóla Íslands.

Á málþinginu talar kunnur sérfræðingur um auðlindanýtingu, Ralph Townsend, prófessor í Maine-háskóla og forseti hugvísindadeildar Winona State University í Minnesota, um kerfi varanlegra og framseljanlegra aflaheimilda í því skyni að tryggja hagkvæmar fiskveiðar. Ragnar Árnason, hagfræðiprófessor í Háskóla Íslands, reifar helstu rökin gegn veiðigjaldi og Dr. Gunnar Haraldsson, forstöðumaður Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands, gagnrýnir fiskveiðistefnu Evrópusambandsins, CFP, Common Fisheries Policy.

Fundarstjóri er Daði Már Kristófersson, forseti félagsvísindasviðs.

Við þetta tækifæri afhenda forráðamenn Hvals hf. Háskóla Íslands brjóstmynd af Árna, sem komið verður fyrir í húsi félagsvísindasviðs, Odda. Árni rak Hval ásamt félaga sínum, Kristjáni Loftssyni útgerðarmanni. Ekkja Árna, Ingibjörg Björnsdóttir, afhjúpar brjóstmyndina, sem Gerður Gunnarsdóttir myndhöggvari gerði. Málþingið er einnig þáttur í samstarfsverkefni RNH og AECR, Evrópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna, um „Evrópu, Ísland og framtíð kapítalismans“.

Að málþinginu standa félagsvísindasvið Háskóla Íslands og RNH.