Fréttasafn



6. des. 2013

Kjörís valið fyrirtæki ársins á Suðurlandi

Kjörís hefur verið valið fyrirtæki ársins í árlegri könnun sem Báran, stéttarfélag, og Verslunarmannafélag Suðurlands standa fyrir meðal félagsmanna sinna. Í öðru sæti hafnaði Landsvirkjun og Sláturfélag Suðurlands í því þriðja.

Markmið könnunarinnar er að gera það eftirsóknarvert fyrir fyrirtæki að hljóta nafnbótina og um leið að skapa sér gott orðspor á vinnumarkaði. Fulltrúar starfsmanna og forsvarsmenn Kjöríss tóku á móti formönnum félaganna í dag, sem mættu með veglega blómakörfu og viðurkenningarskjal til staðfestingar á kjörinu.

Könnunin var gerð meðal félagsmanna og spurt út í aðbúnað, stjórnun, líðan og kjarasamningsbundin réttindi.

Á myndinni  hér fyrir ofan  eru í réttri röð: Anna Kristín Kjartansdóttir, skrifstofustjóri, Valdimar Hafsteinsson, framkvæmdastjóri, Gils Einarsson formaður Verslunarmannafélags Suðurlands, Halldóra S. Sveinsdóttir formaður Bárunnar, stéttarfélag og Guðrún Hafsteinsdóttir, markaðsstjóri.