Fréttasafn



13. feb. 2014

Níu þúsund manns sóttu UT messuna

Um 9 þúsund manns mættu á opið hús UT messunnar laugardaginn 8. febrúar. Ríflega 850 manns voru á ráðstefnu UTmessunnar sem haldin var á föstudeginum og tókst gífurlega vel.

Tilgangur UTmessunnar, sem er einn stærsti viðburður ársins í tölvugeiranum, er að sýna almenningi hversu stór og umfangsmikill þessi grein er orðin hér á landi en öll helstu tölvu- og tæknifyrirtæki landsins og taka þátt með einum eða öðrum hætti og hvetja þannig fólk til að kynna sér um hvað tölvuiðnaðurinn snýst.

Boðið var upp á 60  áhugaverðra fyrirlestra, sýningarbása helstu tölvu- og tæknifyrirtækja landsins, Hönnunarkeppni véla- og iðnverkfræðinema og örmessur þar sem flutt voru stutt og fróðleg erindi. Þá gafst gestum kostur á að spreyta sig á forritun með aðstoð barna og sjá hvað hægt er að gera með Mindstorm LEGO kubbum og tækni, sjá hvernig þrívíddarprentarar virka, og kynnast nýjustu tækni í tölvuleikjum svo að nokkuð sé nefnt.

Rakel Sölvadóttir, stofnandi Skema fékk UT verðlaun Ský 2014 en þetta er í fimmta sinn sem verðlaunin eru afhent. Í rökstuðningi valnefndar segir að Rakel sé hugsjónamanneskja og frumkvöðull sem sýnt hafi hversu mikilvægt það sé að vera jákvæður og trúa á sjálfan sig og hugmyndir sínar.

Rakel stofnaði sprotafyrirtækið Skema árið 2011 og hefur það vaxið á ógnarhraða frá stofnun. Um mitt síðasta ár stofnaði Rakel fyrirtækið reKode Education í Bandaríkjunum, sem byggir á sömu hugmyndafræði og Skema og hefst kennsla þar í apríl næstkomandi.

Markmið Skema er að uppfæra menntun í takt við tækniþróun og býður fyrirtækið upp á námskeið fyrir börn frá 7 ára aldri í forritun. Jafnframt leggur Skema mikla áherslu á endurmenntun kennara og er því með námskeið ætluð kennurum í notkun upplýsingatækni í kennslu ásamt ráðgjöf við innleiðingu á notkun tækni og kennslu í forritun í almennt skólastarf.

Það var Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, sem afhenti Rakel verðlaunin.