Fréttasafn



3. mar. 2014

Skuggasveinn valinn besti leikurinn í Game Creator

Tilkynnt var um vinningshafa Game Creator – keppni um besta tölvuleikinn – á Háskóladögum í Háskólanum í Reykjavík sl.  laugardag.

Liðið Indjánagil hlaut 1. verðlaun fyrir leikinn Skuggasveinn. Í leiknum þarf Skuggasveinn að ferðast um borð á misjöfnu erfiðleikastigi. Markmiðið er að komast í gegnum borðið heill heilsu, finna lykla og komast á næst borð.

Liðið er skipað Örvari Kárasyni og Sveinbirni Örvarssyni.

Í umsögn dómnefndar segir meðal annars: Liðið var með skýra sýn sem er nauðsynleg til að fara með leikinn á næsta stig. Leikurinn hefur möguleika til að skera sig úr og slá í gegn.

Til mikils var að vinna en vinningsliðið hlaut 140.000 kr. frá Arion Banka, vinnuaðstöðu og leiðsögn í þrjá mánuði hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands, 12 mánaða áskrift 3 Unity Pro, gagnavistun hjá Basis í 12 mánuði og niðurfelld félagsgjöld hjá IGI – Samtökum leikjaframleiðenda í tvö ár.

Sérstakar viðukenningar hlutu fjögur önnur lið: Crying Pig með leikinn P.I.L.L ., The Flying Dutchman Games for Tom & Moonfury - Adventure Through Afterlife, Sokoban fyrir leikinn Modulus og DragonFish fyrir Juice Ball.

Þetta er í þriðja sinn sem Game Creator leikjakeppnin fer fram. Keppnin fór fyrst fram árið 2010 þar sem Clockwork Alien bar sigur úr bítum og árið eftir sigraði lið Lumenox þar sem nú starfa átta manns að framleiðslu leiksins Auru's Awakening á skrifstofu fyrirtækisins í Hafnarfirði. Tilgangur Game Creator er að efla nýsköpun í íslenskri leikjaframleiðslu og gefa nýju fólki og liðum tækifæri á að koma fram og kynna hugmyndir sínar og leikjahönnun.

Game Creator keppnin er haldin á vegum Samtaka leikjaframleiðenda (IGI) í samvinnu við Háskólann í Reykjavík og var keppnin opin öllum utan starfsmanna fyrirtækja innan IGI. 

Hér má nálgast myndband með kynningu á þeim 11 leikjum sem skilað var inn til keppni.

http://gamecreator.igi.is