Fréttasafn



28. maí 2014

Rio Tinto Alcan hlýtur Hvatningarverðlaun jafnréttismála

Rio Tinto Alcan á Íslandi hf. hlýtur Hvatningarverðlaun jafnréttismála sem veitt voru í fyrsta sinn í dag á ráðstefnunni "Aukið jafnrétti - aukin hagsæld".Að verðlaununum standa atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, UN Women á Íslandi, Festa - miðstöð um samfélagsábyrgð og Samtök atvinnulífsins.

Fjórtán fyrirtæki voru tilnefnd en niðurstaða dómnefndar, sem skipuð var fulltrúum ofangreindra aðila, var einróma.

Ragnheiður Elín Árnadóttir iðnaðar- og viðskiptaráðherra afhenti verðlaunin og sagði að fyrirtækið hefði með markvissum hætti stuðlað að jafnrétti í starfsemi sinni um árabil.

"Stjórnendur fyrirtækisins hafa með eftirtektarverðum hætti breytt menningu fyrirtækisins svo bæði kynin eiga þar nú jafna möguleika til að starfsframa og þar er stuðlað að launajafnrétti," sagði Ragnheiður Elín. "Árangur fyrirtækisins er sérstaklega eftirtektarverður þar sem starfssvið þess var um áratugaskeið álitið starfsvettvangur karla fremur en kvenna. Forstjóri fyrirtækisins hefur, ásamt stjórnendateymi sínu, aukið vitund í samfélaginu um kynjajafnrétti og sýnt að jafnrétti stuðlar að aukinni hagsæld."

Rannveig Rist tók á móti verðlaununum og sagði við það tækifæri að áður fyrr hefði hún talið að jafnrétti væri svo sjálfsagður hlutur að það hlyti smám saman að koma af sjálfu sér. Raunin væri hins vegar önnur; jafnrétti kæmi ekki af sjálfu sér heldur þyrfti að koma því á með markvissum aðgerðum.