Fréttasafn



1. júl. 2014

Gagarín hlýtur silfurverðlaun European Design Awards

Gagarín hlaut nýverið silfurverðlaun í flokki stafrænnar hönnunar í samkeppni á vegum European Design Awards fyrir villihreindýrasafnið á Harðangursöræfum í Noregi. Verðlaunin eru afhent árlega þeim sem þykja skara fram úr í Evrópu á sviði grafískrar hönnunar, myndskreytinga og stafrænnar hönnunar.

Gagarín hannaði og þróaði 13 gagnvirk sýningaratriði fyrir villihreindýrasafnið. Þessi sýningaratriði spanna nánast allt sem við kemur hreindýrum og geta gestir safnsins fræðst um þessi merkilegu dýr á margvíslegan hátt, um uppruna þeirra og sögu, hegðunarmynstur, líffræðilega þætti, ásamt öllum þeim hættum sem að heimkynnum þeirra steðja.

Gagarín vann þetta verkefni í nánu samstarfi við sýningarhönnuðinn Torbjørn Nielssen frá Spekter AS, iðnhönnuðina Michael Blikdal og Gunnþóru Guðmundsdóttur, Dataservice Rjukan sem sá um tölvubúnað og verkefnisstjórann Per Lykke. Verðlaunin voru afhent þann 24. maí 2014 í Köln í Þýskalandi.

European Design Awards eru samstarfsverkefni fimmtán evrópskra hönnunartímarita, sem öll eru leiðandi á sínu sviði og dómnefndina skipa fulltrúar þeirra. Verðlaunin voru fyrst veitt 2006 og eru talin ein virtustu verðlaun á sviði hönnunar í Evrópu.