Fréttasafn



29. ágú. 2014

Íslenska kalkþörungafélagið færir Bíldudalsskóla spjaldtölvur

Íslenska kalkþörungafélagið á Bíldudal afhenti í morgun Bíldudalsskóla níu iPad spjaldtölvur að gjöf. Fjöldi tölvanna samsvarar fjölda núverandi starfsmanna hjá Kalkþörungafélaginu sem luku á sínum tíma námi frá skólanum á Bíldudal. Með þessu tekur Kalkþörungafélagið þátt í átaki í spjaldtölvuvæðingu skólans ásamt öðrum fyrirtækjum og félögum á Bíldudal.

Einar Sveinn Ólafsson framkvæmdastjóri Kalkþörungafélagsins, sem er stærsti einstaki vinnuveitandinná Bíldudal, segir að meginástæða þess að ákveðið var að færa skólanum tölvur að gjöf sé einfaldlega áhugi á að taka þátt í frekari uppbyggingu staðarins á sem víðasta grunni. „Hér er góður skóli með góðu starfsfólki og við viljum efla hann. Góður og vel tækjum búinn skóli í samræmi við venjulegar nútímaþarfir fólks, er hluti af þessu. Skólastjórnendur um allt land eru í auknum mæli farnir að nota spjaldtölvur við kennslu og eins vilja foreldrar barna að skólar uppfylli þær væntingar sem nútíminn gerir kröfu um. Aðgangur að spjaldtölvum til að leysa hin ýmsu verkefni í náminu er eitt af því sem kennsluaðferðir í dag taka mið af,“ segir Einar.

Hann bendir jafnframt á að eftir því sem samfélagsstoðirnar á svæðinu séu styrkari sé líklegara að barnafjölskyldur vilji setjast að á litlum stöðum eins og Bíldudal. „Okkur er engin launung á því að það er það sem við stjórnendur atvinnufyrirtækjanna á Bíldudal og á svæðinu í heild viljum stuðla að, það vantar fleira fólk til að taka þátt í uppbyggingunni.“

Bíldudalsskóli er hluti Grunnskóla Vesturbyggðar, sem samanstendur af þremur skólum, Patreksskóla á Patrekssfirði, Birkimelsskóla á Krossholti á Barðaströnd auk Bíldudalsskóla. Skólastjóri grunnskólans er Nanna Sjöfn Pétursdóttir, en alls starfa rúmlega 30 manns við skólana þrjá, þar af um 8 á Bíldudal. Nemendur skólanna þriggja verða 122 í vetur.