Fréttasafn



5. nóv. 2014

Markaðsmál, leyfisveitingar og vöxtur í brennidepli á aðalfundi SÍL

Markaðsmál, leyfisveitingar og vöxtur fyrirtækja voru meginþemað á aðalfundi Samtaka íslenskra líftæknifyrirtækja sem haldinn var á dögunum.

Undanfarið ár hafa verkefni félagsins tekið mið af nýlegum áherslum SÍL. Leyfisveitingar fyrirtækjanna voru skoðaðar með það í huga að bæta ferlin. Einnig var horft til markaðsmála og tækifæra í líftækni og fjölbreytni greinarinnar.

Meðal þess sem félagið beitti sér fyrir á síðasta starfsári var bætt þjónustu Lyfjastofnunar  við framleiðendur lækningatækja og breytingar á fjármögnun sérverkefna stofnunarinnar fyrir lyfjaframleiðendur. Á sviði markaðsmála taka samtökin þátt í vinnu Íslandsstofu um markaðsstarf erlendis og er ljóst að mikil tækifæri eru á því sviði.

SÍL tók þátt í skipulagningu Nýsköpunartorgs í Háskólanum í Reykjavík dagana 23. og 24 maí. Um var að ræða fagráðstefnu um starfsumhverfi og uppbyggingarferli nýsköpunarfyrirtækja og sýningu þar sem fyrirtæki og stofnanir kynntu árangur í nýsköpun. Fjölmörg líftæknifyrirtæki vöktu athygli fyrir áhugaverðar kynningar.

Á fundinum var kosin nýr formaður, Björn Örvar og tekur hann við af Ágústu Guðmundsdóttur. Inni í stjórn kemur einnig Orri Björnsson. Hörður Kristinsson situr áfram frá fyrra ári en úr stjórn gekk Ása Brynjólfsdóttir.

Fundurinn var haldinn í húsakynnum Zymetech sem kynnti nýjungar í starfsemi sinni. Fyrirtækið hefur vaxið mikið undanfarið og á síðasta ári voru ráðnir 5 nýir starfsmenn. Aukinn kraftur er lagður í rannsóknar- og þróunarstarf auk markaðsmála. Zymetech framleiðir húðvörur og lækningavörur innihalda virk fiskensím sem unnin eru úr fiskislóg. Vörurnar eru seldar á norðurlöndum og víðar um heim.

Áherslur SÍL