Fréttasafn



  • CRI-opnun

11. des. 2014

Carbon Recycling reisir verksmiðju í Þýskalandi

Carbon Recycling International (CRI) mun reisa verksmiðju í Þýskalandi byggða á tækni CRI til framleiðslu á vistvænu eldsneyti. Verksmiðjan mun framleiða metanól úr rafmagni og koltvísýringi úr útblæstri kolaorkuvers í Ruhrhéraðinu. Verkefnið sem áætlað er að kosti 11 milljónir evra (um 1.700 milljónir króna) hefur hlotið styrk úr Horizon 2020 rannsóknaráætlun Evrópusambandsins. Með þessu stígur CRI stórt skref á alþjóðamarkaði við innleiðingu tækni til framleiðslu á vistvænu eldsneyti úr rafmagni, sem þróuð var hér á landi.

Meðal samstarfsaðila CRI í verkefninu er Mitsubishi Hitachi Power Systems Europe, evrópskir háskólar og rannsóknarstofnanir.

Verkefnið er til þriggja eða fjögurra ára og snýr að þróun, smíði og prófunum á framleiðsluferli til þess að nýta umframorku vegna sveiflukenndra endurnýjanlegra orkugjafa og endurvinna koltvísýring til framleiðslu verðmæta, s.s. eldsneytis og efnavara.

Þáttur CRI í verkefninu lýtur að hönnun og uppsetningu á tilraunaverksmiðjunni sem byggir á þeirri tækni sem fyrirtækið hefur þróað á rannsóknarstofu sinni í Reykjavík og við smíði og rekstur eldsneytisverksmiðjunnar í Svartsengi.

Sjá nánar.